Buick Verano til Evrópu undir nafninu Opel Astra: Bíllinn ber nýtt nafn í hverri álfu

Buick Verano ber nýtt nafn í hverri álfu.
Buick Verano ber nýtt nafn í hverri álfu. mbl.is/gm

Stallbakurinn Opel Astra hefur farið nokkurs konar hring í kringum jörðina en undir mismunandi nafni eftir því hvar hann hefur borið niður. Þessi nýjasti bíll af smærri gerðinni úr smiðju General Motors (GM) er byggður á svonefndum Delta II grunnvagni.

Hönnun bílsins er alþjóðlegt samstarfsverkefni því í henni tóku þátt hönnunarmiðstöðvar GM bæði í Bandaríkjunum og Asíu. Hann var fyrst seldur í Kína og þá undir heitinu Buick Excelle GT en síðan fengu bandarískir neytendur að kynnast bílnum og þar var hann boðinn sem Buick Verano.

Núna bætist bíllinn svo við sem fjórða innleggið í Astra-línu GM í Evrópu en þar eru fyrir fimm dyra hlaðbakur, Astra-langbakur og þriggja dyra Astra GTC. Hægt verður að velja um sjö mismunandi vélarútgáfur. Fjórar bensínvélar á bilinu 100-180 hestöfl og þrjár 95-130 hestafla dísilvélar. Þar á meðal verða tvær ecoFLEX-vélar með stop/start-búnaði.

Í byrjun næsta árs bætist svo við áttundi drifrásarvalkosturinn; 1,6 lítra hverfilblásin SIDI Ecotec bensínvél með beinni innspýtingu. Sala hefst á þessum nýja stallbak GM í Evrópu nú í júní þótt formlega verði honum ekki hrint úr vör í álfunni fyrr en á bílasýningunni í Moskvu í ágústlok.

agas@mbl.is

Buick Verano ber nýtt nafn í hverri álfu.
Buick Verano ber nýtt nafn í hverri álfu. mbl.is/gm
mbl.is

Bloggað um fréttina