Áform um rafbílavæðingu lögð til hliðar?: Þýska stjórnin missir áhuga á rafbílum

Electric Drive bíllinn frá Mercedes Benz er enn á hugmyndastigi. …
Electric Drive bíllinn frá Mercedes Benz er enn á hugmyndastigi. Hvort hann á sér líf handan þess verður að koma í ljós á næstu misserum. mbl.is/Mercedes-Benz

Þýska stjórnin hefur fallið frá þeim markmiðum sínum, að á götum Þýskalands verði að minnsta kosti ein milljón rafbíla þegar árið 2020 rennur upp.

„Bólan er sprungin,“ segir í sunnudagsblaði Frankfurter Allgemeine. Það kveðst hafa undir höndum skýrslu frá mennta- og rannsóknarmálaráðuneytinu um að ríkisstjórn Angelu Merkel hafi ýtt áformum sínum um rafbílavæðingu til hliðar.

Miklar vonir sem bundnar voru við mengunarlausa rafbíla hafi snúist upp í gríðarleg vonbrigði, segir blaðið. Umhverfisráðherrann Peter Altmaier segir þar, að hindranir séu í vegi rafbílavæðingarinnar og efnahagsráðherrann Philipp Rösler hefur hafnað öllum tillögum um að hvetja til kaupa á rafbílum með ívilnunum á kostnað ríkissjóðs.

Sérfræðingar segja, að með stefnubreytingunni sé ríkisstjórnin að játa það sem bílaframleiðendur hafi lengi gert sér grein fyrir, að markmiðin hafi verið óraunhæf.

Í gær, mánudag, var ráðgerður fundur um rafbílavæðingu sem Merkel kanslari boðaði leiðtoga í bílaiðnaði til. Herma heimildir Frankfurter Allgemeine, að áhugi ríkisstjórnarinnar á rafbílum hafi dvínað.

Þýskir bílsmiðir segja, að án frekari ríkisstuðnings muni þeir í besta falli geta selt 600.000 rafbíla fram til 2020. Fyrrnefnt blað segir að boðskapur stjórnarinnar sé nú: „Hvað er svo slæmt við það þótt rafbílavæðingin gangi ekki hratt fyrir sig?“

Rannsóknar- og menntamálaráðherrann Annette Schavan segir að mun meiri tíma þurfi til að þróa rafbílinn til að hann nái fótfestu. Eigi það ekki síst við um að bæta rafgeyma þeirra. „Sá vandi verður ekki leystur á allra næstu árum,“ segir hún í umsögn sem hún skrifaði fyrir fund Merkel með þýsku bílaframleiðendunum.

Leiðtogi þýsku bílgreinasamtakanna (VDA) sagði í fréttatilkynningu fyrir helgi, að aukinn og vaxandi slagkraftur væri í þróun rafvæddra samgangna í landinu. Fyrstu rafbílarnir væru þegar komnir í notkun og fram til ársloka 2014 myndu þýskir bílsmiðir koma með 15 nýja rafbíla á markað.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: