Tveggja strokka dísilvél frá Volkswagen

Litla dísilvélin mun fyrst sjást í smábílnum up!
Litla dísilvélin mun fyrst sjást í smábílnum up!

Volkswagen vinnur nú að smíði örsmárrar tveggja strokka dísilvélar sem í fyrstu mun sjást í Volkswagen up! smábílnum. Fiat kynnti tveggja strokka vél með forþjöppu í fyrra sem vann til ýmissa verðlauna og þykir einkar vel heppnuð. Tveggja strokka vélin frá Volkswagen er hönnuð út frá vél sem notuð hefur verið í tilraunabílinn XL1 sem aðeins á að eyða 1 lítra af eldsneyti á hundraðið, en sá bíll fer einmitt í framleiðslu á næsta ári.

Vélin smáa á að smellpassa inn í hinn nýja undirvagn Volkswagen sem hentar í svo margar gerðir bíla af Volkswagen-fjölskyldunni. Það gæti þýtt að vélin gæti fullt eins sést í nýjum og smáum jepplingi Volkswagen sem fá mun nafnið Taigun og vera minnsti jepplingur fyrirtækisins. Hann var frumsýndur í Sao Paulo í Argentínu fyrr í þessari viku.

mbl.is