Álagningin sögð aldrei meiri

Olíufélögin hafa lækkað verð á bensíni og dísilolíu nokkuð skart síðustu daga. Bensínlítrinn hefur frá í sl. viku lækkað í verði um 4,40 kr. Eftir lækkunina er algengt lítraverð í sjálfsafgreiðslu kr. 247,20.

Dísel hefur sömuleiðis lækkað í verði og algengasta lítraverð olíunnar í gærmorgun var 259,30 kr.

Félag íslenskra bifreiðaeigenda fylgist daglega með þróun eldsneytisverðs, bæði á veraldarvísu og hér heima. Að því er fram kemur í frétt á vefsetri félagsins er verðlækkun síðustu daga minni en vænta hefði mátt. Álagning olíufélaganna á bensínið hafi náð nýjum hæðum sl. nóvember. Sé nú per lítra tæpum sex krónum yfir meðalálagningu ársins.

Meðalálagning og flutningskostnaður á bensín var, skv. útreikningum félagsins, ríflega 38 krónur á hvern lítra, sem er eins og áður er sagt rúmum 6 krónum yfir meðalálagningu ársins.

Meðalálagningin í ár hefur verið 32,3 kr. Til samanburðar er nefnt að skv. áðurnefndri breytu hafi álagningin í fyrra verið 32 kr. á hvern lítra og krónunni lægri árið 2010.

Félögin eru samtaka

Kostnaður neytenda vegna álagningar og flutningskostnaðar á hvern lítra af dísilolíu er nú 37,60 kr. en meðalálagning ársins er rúmlega 36 krónur, segir FÍB.

„Þessi hækkun álagningar er óásættanleg. Félögin eru samtaka um hækkunina en á eðlilegum samkeppnismarkaði væru þessar aðstæður tækifæri fyrir framsækið fyrirtæki til að bjóða betra verð með það að markmiði að auka við markaðshlutdeild. Tækifæri olíufélaganna liggja í því að draga úr kostnaði, t.d. með fækkun bensínstöðva. Við erum með flestar bensínstöðvar á mann miðað við höfðatölu í hinum iðnvædda heimi og fyrir það eru íslenskir neytendur að borga,“ sagði Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, í samtali við Morgunblaðið.

Hugsanlega réttlæta félögin hækkun álagningar nú með tilvísun í samdrátt í eldsneytissölu, að mati Runólfs sem bendir á að umferð hafi dregist saman frá hruni og nýir bílar eru eyðslugrennri en eldri árgerðir. Fram kemur hjá FÍB að almenna reglan sé að nýir bílar eyði allt að fjórðungi minna eldsneyti en bílar sem voru framleiddir fyrir 2007.

„Síðan bætist við að stjórnvöld hafa verið að stórauka skatta á eldsneyti á liðnum árum og fram undan er skattahækkun um áramót,“ segir Runólfur.

Minni umferð réttlætir ekki hækkun

Runólfur undirstrikar það mat sitt að minni umferð réttlæti alls ekki hækkun álagningar. Það megi jafnvel sjá ákveðin batamerki. Í október sl. var akstur 1,4% meiri en á sama tímabili í fyrra skv. tölum Vegagerðarinnar. Það þarf að fara aftur til ársins 2008 til að finna aukningu á sama tímabili. „Samkeppni olíufélaganna í dag er aðallega í tengslum við afslætti. Stóru olíufélögin þrjú hafa fengið miklar afskriftir skulda sem stofnað var til vegna sjálftöku og lélegs rekstrar fyrri eigenda. Álagningin hér á landi er mjög há. Strangt aðhald samtaka eins og FÍB með verðlagningu á olíumarkaðnum er mikilvægt þar sem samkeppnisaðhaldið er ófullnægjandi á íslenska fákeppnismarkaðnum,“ segir Runólfur.

sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: