Citroen kynnir bíl knúinn þrýstilofti

PSA Peugeot Citroen fer ótroðnar slóðir með nýjum tvinnbíl sem franski bílsmiðurinn íhugar að frumsýna á bílasýningunni í Genf síðar í vetur. Stefnt er að því við þróun hans að bíllinn brúki aðeins tvo lítra af bensíni til 100 kílómetra aksturs.

Og það sem gerir franska tvinnbílinn frábrugðinn öðrum að auk bensínvélar verður í aflrásinni þrýstiloftsbúnaður til að knýja hann áfram. Tæknin verður fyrst reynd í Citroen C3 og Peugeot 208 bílum. Boðað er að þeir muni einungis losa 69 g/km af koltvíildi.  

Hybrid Air tæknin eins og PSA nefnir hana byggir á bensínvél sem tengd er hjáhringsskiptingu en við hana eru einnig tengdur vökvamótor sem þrýstiloftsdæla sér um að knýja. Þegar bíllinn hægir á sér í akstri eða hemlar nýta mótorinn og dælan orkuna sem þá myndast til að fylla þrýstiloftskútinn á ný.

Bíll með þessum búnaði á að geta ekið fyrir öðru hvoru kerfinu einu og sér eða báðum samtímis. Í borgarakstri myndi hann aka í loftaflsham einvörðungu en kerfið á að taka  drifrásina sjálfkrafa  yfir á undir 70 km/klst ferð. Að sögn talsmanna PSA ætti að vera hægt að nota loftafl eingöngu um 60-80% tímans í borgarakstri.

Þeir segja, jafnframt að bíllinn þurfi 45% minna bensín en hefðbundin brunavélarbíll með sambærilegum afköstum að afli til og sé 90% langdrægari. PSA hyggst þróa þessa tvinnloftstækni í bíla í B- og C-geirunum, þ.e.a.s. bíla með milli 82 og 100 hesta bensínvél. Einnig í litla sendibíla. Áformað er að tvinnbílar þessarar tækni verði komnir í fjöldaframleiðslu árið 2016.

mbl.is

Bloggað um fréttina