Keppir á King of the Hammers

Ragnar Róbertsson í ökumannssætinu á keppnisbíl. Það er Jeremy Hammer …
Ragnar Róbertsson í ökumannssætinu á keppnisbíl. Það er Jeremy Hammer sem situr við hlið hans.

Á hverju ári um þetta leyti hittast helstu torfæruökuþórar Bandaríkjanna í Johnson-eyðimerkurdalnum í Kaliforníu. Meðal keppenda í ár er Íslendingurinn Ragnar Róbertsson sem er flestum hérlendis vel kunnur úr torfærunni.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ragnar keppir þarna því það gerði hann einnig árið 2011 og 2012. Það var John Eberstein, vinur Ragnars í Bandaríkjunum, sem skrifaði honum fyrst um keppnina og sagðist þekkja einn sem væri nógu kjarkaður að keppa og það væri Ragnar. Það er óhætt að segja að Ragnar er enginn nýgræðingur þegar kemur að mótorsporti og hefur hann keppt á mörgum gerðum ökutækja, eins og til dæmis í kvartmílu á mótorhjólum. Bestum árangri hefur hann samt náð í torfærunni þar sem hann varð meðal annars heimsbikarmeistari 2008 og fyrir vikið kosinn akstursíþróttamaður ársins sama ár.

Missti bílinn en fékk annan

Það er ekki síst þessum árangri Ragnars að þakka að hann er meðal keppenda í keppninni „King of the Hammers“ en keppnin samanstendur af akstri sérsmíðaðra torfærujeppa í sandöldum og stórgrýttum brekkum. Jepparnir eru í flokki sem kallast Ultra 4 og eru mönnum engin mörk sett með smíði þeirra. Geta þeir náð vel yfir 160 km hraða í sandöldunum og eru samt með lág gírhlutföll fyrir klifrið í grjótinu. Bílablaðið náði sambandi við Ragnar í Kaliforníu stuttu eftir keppnina og spurði hann út í þátttökuna. „Þetta virkar þannig að um 100 keppendur eru komnir með sæti en 70 keppendur kepptu í LCQ (last chance qualify) um 10 laus sæti og ég var einn af þeim,“ sagði Ragnar. Í ár átti Ragnar að keppa fyrir Brad Falin en vegna aðstæðna hjá honum komst hann ekki með bílinn til keppni og sat því Ragnar uppi með laust sæti í keppninni en engan bíl. „Ég ákvað að taka samt hjálminn og gallann með mér út og reyna að bjóða einhverjum sem dytti út úr LCQ-keppninni að komast inn aftur með mig sem bílstjóra því ég var skráður í keppnina.“

Keyrði vel þangað til í lokin

Sú áætlun Ragnars gekk upp því Jeremy Hammer nokkur gerði út um sína möguleika í LCQ með því að sprengja dekk og velta bílnum. „Við hittumst og ákváðum að ég myndi keyra fyrir hann í upphafi keppni en hann tæki við áður en henni lyki því ég var með far frá Johnson Valley seinnipart föstudags.

Ég keyrði LCQ-brautina til að fá númer í rásmarki. Það voru ekki teknir neinir sénsar þar enda var ég óvanur bílnum. Ég ræsti númer 85 af 129 bílum sem ræstu í keppninni. Ég keyrði um 50 mílur, mest á öldóttum slóðum en líka um sandbrekkur og klettaslóða. Ég náði að fara fram úr nokkrum og einhverjir fóru fram úr mér en ég fór hraðar yfir en við höfðum þorað að vona. Rétt fyrir ráshliðið keyrði ég á stóran stein sem sprengdi dekk og braut stýrisarm. Ég náði að brölta bílnum á viðgerðarsvæðið með vinstra framhjól loftlaust og dinglandi fram og til baka,“ sagði Ragnar um þátt sinn í keppninni í ár. „Okkur gekk vel og ég sem keppnismaður vildi að Jeremy tæki við eftir þennan fyrsta hring því nú átti erfitt klettaklifur að taka við og hann þekkti margar þeirra miklu betur en ég og átti að ná þeim á betri tíma,“ sagði Ragnar. Eitthvað gekk þó ekki upp hjá þeim félögum Ragnars og náðu þeir ekki að klára keppnina að þessu sinni. Ragnar áætlar að taka þátt aftur og vill helst smíða bíl hér heima til verksins en í slíkt ævintýri þarf sterka styrktaraðila.

njall@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: