Bond kafbátabíll á 105 milljónir

Vondu kallarnir hafa ekki roð við hverjum sem á svona …
Vondu kallarnir hafa ekki roð við hverjum sem á svona græju.

Á bílauppboðum gefst almenningi oft tækifæri til að berja augum sjaldgæfa og verðmæta bíla sem alla jafna sjást sjaldan á götum úti. Það er reyndar sjaldgæft að kafbátar séu seldir á slíkum uppboðum, en það gerðist einmitt í upphafi vikunnar.

Kafbáturinn sem um ræðir er reyndar byggður á bíl, nánar tiltekið Lotus Esprit, og var notaður í Bond-myndinni „The Spy Who Loved Me“. 

Eins og allir muna, sem séð hafa myndina, ekur James Bond (leikinn af Roger Moore) hvítum Esprit fram af vatnsbakka og á bólakaf. Til allrar hamingju breytist bíllinn á svipstundu í kafbát og hasarinn heldur áfram.

Alls var sex yfirbyggingum af Lotus Esprit breytt til að nota í þessu atriði, en aðeins ein þeirra var gerð að nothæfum kafbát, sú sem boðin var upp í vikunni.

Þegar hamarinn féll var hæsta boð rúmar 105 milljónir íslenskra króna, en samkvæmt frétt vefsíðu Telegraph hafði verið búist við að minnsta kosti 180 milljónum fyrir bílinn.

Líklega hefur vantað fleiri Bond-aðdáendur í salinn, eða áhugafólk um kafbátasiglingar. Að minnsta kosti er enn hægt að fá góðan pening fyrir bíl á slíkum uppboðum, eins og Corvettan sem seld var fyrir 387 milljónir um síðustu helgi staðfestir.

„Bíllinn“ er nothæfur sem kafbátur í raunveruleikanum.
„Bíllinn“ er nothæfur sem kafbátur í raunveruleikanum.
mbl.is