Tesla selst vel í Noregi

Tesla Model S.
Tesla Model S.

Norðmenn kaupa hlutfallslega fleiri rafbíla en flestar aðrar þjóðir. Það endurspeglast meðal annars í því, að fyrstu vikuna í septembermánuði reyndist Tesla Model S söluhæsti bíllinn þar í landi.

Raflúxusbíll þessi sló engum aukvisum við því í öðru sæti varð VW Golf og því þriðja Mazda CX-5. Voru nýskráðir 133 Tesla bílar en 118 Golf. Og Tesla hefur rokið út að undanförnu því á einum mánuð til loka fyrstu viku september höfðu verið seld 350 eintök af bílnum í Noregi.

Hlutdeild Tesla Model S í bílasölunni í Noregi í fyrstu septembervikunni var 6,1%. Til samanburðar var skerfur Golf 4,9% og Mazda CX-5 4,2 prósent, samkvæmt upplýsingum frá umferðarstofunni norsku.

Ástæðan fyrir stórsölunni í byrjun mánaðarins er að þá komu til afhendingar bílar sem margir kaupendur höfðu verið á biðlista eftir.

Tesla Model S er ekki léttur fyrir pyngjuna. Í Noregi kostar hann á bilinu 450 – 730 þúsund norskra, jafnvirði 9 til 15 milljóna íslenskra króna, og þrátt fyrir að vera undanþeginn sköttum og gjöldum. Verðmunurinn liggur í stærð rafgeymisins og aukabúnaði.

mbl.is