GPS beindi Porsche í forarvilpu

Porsche Panamera Turbo er ekki gerður fyrir vegleysur sem þessa.
Porsche Panamera Turbo er ekki gerður fyrir vegleysur sem þessa.

Það er ekkert grín þegar gervihnattaleiðsögubúnaður (gps) bíla virkar ekki sem skyldi og vísar ökumönnum rangan veg og jafnvel inn á vegleysur. Við og við berast sögur af slíku og fékk til að mynda enskur knattspyrnumaður að kenna á slíku á leið til kappleiks.

Litlu munaði að Andre Wisdom missti af leik með liði sínu Derby County er gps-tækið hrakti 20 milljóna króna Porsche-bifreið hans af leið. Endaði aksturinn í eðjupolli inni í skógi við útjaðar Derby en þar festi Wisdom bílinn.

Ekki var um annað að ræða fyrir hann en yfirgefa bílinn dýra og ganga til baka en um síðir fundu starfsmenn Derby-liðsins hann í skóginum og sáu til þess að hann kæmist á leikinn í tíma.

Bíll Wisdoms er af gerðinni Porsche Panamera Turbo og maður sem kom að honum í forarvilpunni segir það hafa valdið sér miklum heilabrotum hvernig þessi eðalsportbíll komst þangað. „Hann er órafjarri öllu,“ sagði hann við fjölmiðla.

Wilson er atvinnumaður hjá Liverpool en í láni hjá Derby County í vetur. Hann er fyrirliði enska landsliðsins 21 árs og yngri. Starfsmaður félagsins segir að Wilson sé tiltölulega ókunnugur á Derbysvæðinu og hafi gert þau mistök að stimpla póstnúmer leikvangsins inn í gps-tækið. Leiðsögubúnaðurinn átti bara eitt svar við því; ógöngur.

Atvikið hafði lítil sem engin áhrif á frammistöðu varnarmannsins sem átti stóran þátt í að lið hans vann leikinn, 3:0. Og bílinn góða endurheimti hann svo skömmu eftir leik. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina