Leikni og útsjónarsemi við akstur

Þorgerður Katrín er afar ánægð með sinn Toyota Prius. Við …
Þorgerður Katrín er afar ánægð með sinn Toyota Prius. Við aksturinn leiðir hún hugann að því í hvað orkan fer.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs hjá Samtökum atvinnulífsins, er ein þeirra sem lengi hafa verið með bíladellu og fylgist hún afar vel með því sem gerist í bílaheiminum.

„Mér finnst alltaf gaman að prófa ólíka bíla og hef í gegnum árin fylgst ágætlega með bílamálum og les til dæmis alltaf bílablöðin sem koma með blöðunum,“ segir hún.

Tækniundur og nýjungar

Bílasýningin í Frankfurt er sannarlega vettvangur tækninýjunga en sýningin markar sérstök tímamót hjá bílaunnendum víða um heim. Stefnur, straumar og andblær framtíðarinnar er það sem einkennir bílasýninguna. Þorgerður Katrín hefur alltaf gefið sýningunni sérstakan gaum og fylgist vel með umfjöllun um sýninguna enda margt nýtt kynnt til sögunnar á þessari mögnuðu sýningu.

„Ég man að fyrir um áratug fannst manni nú eitthvað skringilegt við það að ætla að stóla á rafmagnið eða metan sem aflgjafa bíla. Þetta er náttúrulega bara spurning um hugarfar hverju sinni. Svo sér maður þau tækifæri sem eru að kvikna núna af annarri kynslóð bíla sem maður áttaði sig ekkert á áður,“ segir hún.

Rafmagnið er góður aflgjafi

Það geta eflaust margir tekið undir það að hafa fundist tilhugsunin um rafmagnsbíla eilítið torkennileg hér áður fyrr. En það hefur heldur betur breyst og nú fjölgar rafmagnsbílum á götum landsins.

Toyota setti tvinnbílinn Prius á markað í Japan árið 1997. Hann hefur komið vel út og verið góður kostur fyrir þá sem umhugað er um náttúruna og andrúmsloftið. Chevrolet Volt/Opel Ampera, Nissan Leaf og ofurbíllinn Tesla eru allir dæmi um rafmagnsbíla og Plug in útgáfan af Prius kom á markað árið 2012. Honum má stinga í samband og hægt að fullhlaða rafhlöðu bílsins á einni og hálfri klukkustund.

Bíll sem lætur mann hugsa

Þorgerður Katrín reynsluók ýmsum smábílum í haust áður en hún tók ákvörðun um hvern þeirra hún ætlaði að kaupa. Prius Plug-in varð fyrir valinu og hún sér ekki eftir því að hafa valið hann.

„Ég viðurkenni að ég ætlaði að kaupa annan smábíl en það frábæra við Plug-in er það að hann lætur mann hugsa á öðrum nótum. Það er alltaf gott þegar það er ýtt við manni og sagt: Reyndu nú að hugsa hlutina alveg upp á nýtt,“ segir hún.

Þegar Priusinn hefur verið hlaðinn má aka á rafmagni einu saman 16-20 kílómetra. Það er nóg fyrir flesta á höfuðborgarsvæðinu til að komast í vinnuna. Á sumum vinnustöðum er innstunga við bílastæðin og hægt að hlaða þar. Þorgerður Katrín segir að það sé ekki mikið mál að hlaða bílinn þegar það er komið upp í vana.

Eins og hún bendir á breytist hugsunarhátturinn og umhverfisvitundin til muna þegar maður getur hreinlega horft á í hvað orkan fer.

„Aldrei spáði maður í það þegar maður var með miðstöðina á fullu og öll tæki í gangi, hversu miklu bensíni til viðbótar maður er að eyða. Nú hugsar maður um hvað manni líður betur að geta haft aðeins meiri yfirsýn og meiri stjórn á því hvað fer út í andrúmsloftið og hvað ekki. Þrátt fyrir að hafa fylgst vel með bílum var maður samt ekkert að spá í eyðsluna sem slíka eða þessi litlu atriði sem auka við eyðslu,“ segir Þorgerður Katrín um Priusinn sem hún er alsæl með.

malin@mbl.is

Það komst fljótt upp í vana að hlaða bílinn og …
Það komst fljótt upp í vana að hlaða bílinn og dugar rafhlaðan alla leið í vinnuna. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina