Spurn eftir Leaf umfram áætlanir

Eftirspurn eftir Leaf er meiri en Nissan hafði áætlað.
Eftirspurn eftir Leaf er meiri en Nissan hafði áætlað.

Nissan hefur upplýst að eftirspurn eftir rafbílnum Leaf hafi verið meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Því séu möguleikar á meiri sölu með aukinni framleiðslu.

Þetta þykir og vera vísbending um að fleiri og fleiri lönd séu að verða móttækilegri fyrir öðru eldsneyti og aflgjöfum en jarðefnaeldsneyti. Því vaxi stöðugt eftirspurn eftir vistvænum bílum. Heldur Nissan því fram að rafbílasala sé að komast í hærri gír.

Frá því Leaf kom á markað árið 2010 hafa á annað hundrað þúsund eintaka verið seld. Og fransk-japanski bílsmiðurinn segist vænta þess að hafa selt 1,5 milljónir rafbíla þegar árið 2020 rennur í garð.

Síðar á árinu hefur Nissan innreið í Suður-Kóreu með Leaf. Og þótt fyrirtæki játi að markaður fyrir rafbíla sé mun minni en bíla með venjulegum brunavélum segir Nissan að harðnandi kröfur um losun gróðurhúsalofts frá bílum eigi eftir að koma rafbílum meira og meira til góða.  

mbl.is