Trabant vinnur Nissan GT-R í spyrnu

Eigandi þessa 530 hestafla Nissan GT-R hefur líklega ekki átt von á þessum úrslitum. Það eitt að fá Trabant sem keppinaut í spyrnu er auðvitað hlægilegt, en þegar Trabantinn skýst svo framúr er líklegt að hláturinn breytist í grátur.

Hér kemur þó margt til. Trabantinn er ekkert venjulegur Trabant. Til dæmis er hann með þriggja lítra vél og forþjöppui í húddinu, á stórum spyrnudekkjum að aftan og aftan á bílnum er prjónvörn. Það segir eitthvað.

Í lýsingunni með myndbandi af spyrnunni, sem er hér fyrir neðan, kemur líka fram að gírskipting hjá Nissaninum hafi misfarist. Ef það er rétt dugar það ef til vill til að bjarga andliti eigandans.

En það er samt eitthvað svo fallegt við að sjá lítinn Trabant rústa nýjum GT-R.

Nissaninn kláraði kvartmíluna á 11,8 sekúndum en Trabantinn fór hana á 11,3.

mbl.is