Tesla áformar „viðráðanlegan“ rafbíl

Táknmerki Tesla sem ætlar að smíða rafbíl á viðráðanlegu verði.
Táknmerki Tesla sem ætlar að smíða rafbíl á viðráðanlegu verði.

Tesla ætlar að hleypa af stokkunum nýju rafbílsmódeli á næsta ári sem á að vera á viðráðanlegu verði, eins og þar segir. Sá bíll sem Tesla smíðar í dag er Model S sem kostar á götuna kominn um 70.000 dollara í Bandaríkjunum.

Eins og títt er þegar spurnir fara af ráðgerðum nýjum bílamódelum velta sérfræðingar því fyrir sér hvort slíkur bíll eigi sér framtíðar von. Og í þessu tilviki hvort það dragi að nýja kaupendur rafbíla að í boði verði hágæða rafbíll sem mun fleiri pyngjur myndu ráða við en Model S.

Hér mun „viðráðanlegt“ verð eiga að tákna um 40.000 dollara eða um 4,5 milljónir króna. Er það ögn hærra en meðaltalsbíllinn kostar í Bandaríkjunum. Í þeim tilgangi að bæta við bílaframboð sitt og draga til sín breiðara kaupendamengi hefur Tesla stigið fyrsta skrefið með ódýrari bílnum.

Enn sem komið er hefur Tesla lítið sem ekkert látið frá sér fara um áform þessi og ljóst þykir að fyrirtækið þurfi að framleiða bílinn í stórum stíl til að ná niður verðinu og standast samkeppni við til að mynda BMW, Mercedes-Benz, Mitsubishi og Volvo sem allir koma með rafbíl á markað á næsta ári. Í fyrra seldi Tesla bíla fyrir tvo milljarða dollara en græddi ekki á því þar sem rekstrartap ársins nam 75 milljónum dollara.

Annar valkostur fyrir Tesla væri að lána stöndugum bílsmiðum á borð við Daimler eða Toyota drifrásartækni sína með sérstöku framleiðsluleyfi og hafa af því góðar tekjur.

Tesla er um þessar mundir að þróa bíl að nafni Model X sem er byggður á sama grunni og Model S. Hér er um nokkurs konar jeppling eða borgarjeppa að ræða. Hann verður 10% þyngri og með fjórhjóladrifi einvörðungu. Deilir hann um 60% íhluta með Model S. Miðað er við að Model X komi á götuna á næsta ári. Hinn 1. apríl síðastliðinn höfðu rúmlega 13.000 fyrirfram pantanir borist í bílinn en við hverja slíka þarf kaupandi að reiða fram 15.000 dollara, eða tæplega 1,7 milljónir króna. Þar er um að ræða staðalbílinn en til að taka frá sérútgáfu þarf að greiða 40.000 dollara við pöntun, eða 4,5 milljónir króna. Hér mun ekki vera á ferðinni þessi viðráðanlegi Tesla-bíll sem að framan greinir.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: