Honda hættir smíði tvinnbílsins Insight

Honda Insight tvinnbíllinn er sláandi líkur Toyota Prius en stóð …
Honda Insight tvinnbíllinn er sláandi líkur Toyota Prius en stóð honum nokkuð að baki í búnaði og þægindum.

Honda hefur ákveðið að hætta smíði tvinnbílsins Insight fyrir lok ársins. Með því snýst japanski bílsmiðurinn þó ekki gegn þessari gerð bíla; ætlar heldur að leggja áherslu á framleiðslu annarra og stærri tvinnbíla.

Það verða fyrst og fremst módelin Accord og Civic sem boðin verða einnig sem tvinnbílar en þeir hafa verið vinsælir hingað til með annars konar aflrás.

Honda stefndi Insight fram gegn Prius-bíl Toyota í Japan. Kom hann á markað í febrúar 2009 og var sláandi líkur Prius að útliti og útfærslu. Hlaut hann í byrjun miklu betri undirtektir en vænst hafði verið. Aldrei komst hann þó í tæri við Prius í sölu og náði aldrei flugi svo sjálfhætt var að smíða Insight.

Helstu skýringarnar á því eru sagðar þær að Honda hafi ekki lagt sig nóg fram við verkefnið. Smíðaður hafi verið bíll sem átti að vera nær eins og Prius en stóð að mörgu leyti nokkuð að baki honum sem olli vonbrigðum. Aflrásin var óburðugri, tvinntæknin ekki eins háþróuð og losun koltvíildis talsvert meiri. Það var ekki til að laða að kaupendur sem létu vistvernd ráða ferðinni við bílaval sitt. Loks var innanrýmið þrengra og þægindi þar minni. Breytti engu þótt Insight væri aðeins ódýrari en Prius, Hondan seldist samt ekki svo orð væri á gerandi.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: