Gerði myndband, fær nýjan Porsche

Nick Murray segist ekki vera ríkur asni. Sem skírir af …
Nick Murray segist ekki vera ríkur asni. Sem skírir af hverju hann þarf að nota Porsche-inn sinn til að flytja kajaka.

Nick Murray segist kannski vera asni, en alla vega ekki ríkur asni. Til að eignast draumabílinn safnaði hann í fimm ár og lét svo eftir sér síðasta sumar að kaupa splunkunýjan Porsche 911 Carrera S

Bíllinn var keyptur af Porsche North America í Bandaríkjunum, þar sem Murray býr. Stuttu síðar fór að bera á vandamálum í bílnum. Til dæmis áttu hliðarrúðurnar það til að skrúfast eilítið niður á ferð, mælaborðið datt út ef keyrt var yfir hraðahindrun, reykur barst innan úr farþegahurðinni og eftir klukkutíma akstur var rafgeymirinn tómur, svo eitthvað sé nefnt.

Vandamálum fjölgaði eftir 60 daga á verkstæði

Eftir að bíllinn hafði farið sjö sinnum á verkstæði, og dvalið þar samtals í 60 daga, tókst að leysa sum vandamál en ekki öll. Þegar ný vandamál fóru svo að skjóta upp kollinum, eins og vatnspollur á gólfinu farþegamegin þegar rigndi, gafst Murray upp og bað um endurgreiðslu eða annan bíl sömu tegundar.

Porsche North America neitaði að verða við þeirri bón og bauð í staðinn að bíllinn yrði keyptur af Murray á endursöluverði, þar sem reiknað væri með verðlækkun þar sem bíllinn væri nú notaður.

Það sætti Murray sig ekki við. Frá því að bíllinn brást honum fyrst hefur hann birt myndbönd á Youtube þar sem hann lýsir vandamálum bílsins og samskiptunum við umboðið. Þegar honum var nóg boðið birti hann myndbandið sem fer hér á eftir. Þar lýsir hann öllum vandamálunum og fer ekki fögrum orðum um framkomu umboðsins við viðskiptavini sína. 

Milljón áhorfendur breyta miklu

Það myndband hefur nú verið skoðað tæplega milljón sinnum, sem varð til þess að Porsche North America brást við og bauð Murray að ganga frá málunum eins og hann óskaði eftir í upphafi. Hann getur því valið á milli þess að fá bílinn endurgreiddan, eða að fá annan samskonar bíl (sem ætti þá vonandi að vera í lagi).

Í síðasta myndbandi sínu segir Murray að hann sé alvarlega að íhuga að velja seinni kostinn, því hann hafi verið ánægður með bílinn þá tvo mánuði sem hann virkaði sem skildi. Ennfremur sé hann sannfærður um að bíllinn sé það sem vestanhafs er kallað sítróna (e. lemon) en við þekkjum hér á klakanum sem mánudagsbíl. Hann beri enn traust til merkisins og vilji ekki að reynsla hans breyti áliti annarra á Porsche bílum.

mbl.is