Tæplega 300 í Klausturskeppninni

Frá Klausturskeppninni í fyrra.
Frá Klausturskeppninni í fyrra.

Ein fjölmennasta og langstærsta akstursíþróttakeppni sem haldin hefur verið hérlendis, Klausturskeppnin svokallaða, verður haldin á Kirkjubæjarklaustri næstkomandi laugardag, 24. maí.

Skráning í keppnina hefur gegið gríðarlega vel og hafa 280 keppendur skráð sig til leiks.
Vélhjólaíþróttaklúbburinn og MSÍ, Mótorhjóla- og snjósleðasamband Íslands, standa að keppninni ásamt landeigendum á Ásgarði við Kirkjubæjarklaustur. Keppnin á síðasta ári laðaði að sér um 300 keppendur.

Undanfarin ár  hefur gríðarleg vinna verið lögð í að gera keppnissvæðið betur úr garði,  og svæðið skipulagt til að henta fyrir keppni eins og þessa.
 
Keppnin hefst kl. 12 á hádegi og stendur yfir í um sex tíma og lýkur því ekki fyrr en um klukkan 18. Þolakstur á mótorhjólum er ein erfiðasta íþróttagrein heims og því er þessi keppni langt frá því að vera auðveld þó svo skemmtunin sé lykilatriði flestra þátttakenda.

Keppt verður í nokkrum flokkum s.s. einstaklingsflokki en sigurvegarinn þar fær sæmdarheitið „Járnkarlinn“ að keppni lokinni enda gríðarleg þolraun að keppa einn í 6 tíma í keppni sem þessari.

Einnig verður keppt í tveggja og þriggja manna liðum auk þess sem veitt verða ýmis skemmtileg verðlaun, svo sem í flokki feðga – mæðgina - eldri en 100 ára samanlagt í tveggja manna flokki - eldri en 135 ára samanlagt í þriggja manna flokki.

Klaustur 2013 - Transatlantic Off-Road Challenge from Red Bull Iceland on Vimeo.

mbl.is