Loftaflfræðin í öðru veldi

Weissach-þróunarmiðstöðin í Baden-Württemberg mun stækka til muna eftir 150 milljóna …
Weissach-þróunarmiðstöðin í Baden-Württemberg mun stækka til muna eftir 150 milljóna evra fjárfestingu bílaframleiðandans Porsche. Hátæknivindgöng eru á meðal nýjunga. Ljósmynd/Porsche

Bílaframleiðendur eru misframarlega hvað tækninýjungar varðar og áherslur jafnan ólíkar þó svo að ýmsum stöðlum þurfi að fylgja, t.d. tengdum mengun og öryggisþáttum.

Þýski framleiðandinn Porsche vill vera framarlega í hverju því sem tengist loftaflfræði og meðal annars vegna þess var farið í gríðarlega stóra fjárfestingu á dögunum þegar 150 milljónum evra var varið í Weissach-þróunarmiðstöðina í Baden-Württemberg. Til stendur að reisa þar þrjár nýjar byggingar sem munu hýsa hönnunarmiðstöð, hátæknivindgöng og rafmagnsdeild.

Þar munu verkfræðingar, hugsuðir og hönnuðir Porsche leggja drög að ofurbílum framtíðarinnar með markvissum hætti.

Fjárfestingin er sú langstærsta sem gerð hefur verið í þróunarmiðstöðinni sem hefur verið starfrækt síðan árið 1971.

Winfried Kretschmann, forsætisráðherra fylkisins Baden-Württemberg var viðstaddur þegar tilkynnt var um fjárfestingu bílaframleiðandans nú fyrir helgi. Stoltið leyndi sér ekki þegar hann státaði af verk- og tæknifræðilegum yfirburðum hinna ýmsu fyrirtækja í fylkinu, með Weissach-þróunarmiðstöðina í broddi fylkingar.

Í þróunarmiðstöðinni eru hlutir hannaðir og smíðaðir frá grunni, allt frá vélum og undirvögnum til rafkerfa. Þar eru íhlutir bæði smíðaðir fyrir Porsche og Volkswagen.

Framtíðarvindgöng

Nýju vindgöngin sem verða í einni af nýju byggingunum munu þjóna margþættu hlutverki. Þar verða hugmyndabílar prófaðir allt frá fyrstu stigum sem og bílar sem eru tilbúnir til framleiðslu. Göngin eru viðamesti þáttur þessarar 150 milljóna evra fjárfestingar og er meginmarkmiðið að búa til enn straumlínulagaðri bíla með umhverfissjónarmið í forgrunni.

4.500 starfsmenn frá Porsche-verksmiðjunni vinna í þróunarmiðstöðinni og 1.500 til viðbótar frá öðrum fyrirtækjum. Fróðlegt verður að fylgjast með uppbyggingu þróunarmiðstöðvarinnar eftir þessa risavöxnu fjárfestingu.

malin@mbl.is

Bílaframleiðandinn vill vera fremstur í flokki hvað loftaflfræðina snertir.
Bílaframleiðandinn vill vera fremstur í flokki hvað loftaflfræðina snertir. mbl.is/Malín Brand
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: