Rallý-Palli rallar á ný

Páll Halldór Halldórsson starfar hjá Öskju og hætti að keppa …
Páll Halldór Halldórsson starfar hjá Öskju og hætti að keppa í ralli árið 2000. Nú er hann mættur til leiks á ný.

Páll Halldór Halldórsson er mörgum kunnur í rallinu en hann keppti á árum áður ásamt Jóhannesi Jóhannessyni. Saman urðu þeir Íslandsmeistarar árið 1998.

Þegar þeir „Jópal-bræður“ eins og þeir voru kallaðir hættu að keppa í sportinu árið 2000 þótti dætrum Páls Halldórs það miður en það var huggun harmi gegn að hann gaf þeim loforð um að hann færi með þeim í keppni áður en hann yrði fimmtugur.

„Sem sagt nægur tími til stefnu að mati allra. En svo skellur á sumarið 2014 og auðvelt að reikna út að fimm tugir eru síðan ég fæddist á Sjúkrahúsinu á Ísafirði og dæturnar minna á loforðið góða,“ segir Páll Halldór sem á fimm dætur.

Auðvelt að fá bíl að láni

Þegar þessi óhagganlega staðreynd blasti við sá hann sér þann kost vænstan að spýta í lófana og finna bíl til að keppa á. Það er greinilegt að keppendur síðustu ára muna eftir Rallý-Palla og auðvelt reyndist að fá bíl til láns. Svo auðvelt að hann gat meira að segja valið á milli ökutækja. „Menn virðast ólmir að koma gamla undir stýri á ný og vilja klást við hann á sérleiðunum,“ segir hann glaður í bragði og virðist sannarlega sáttur við tilhugsunina um þátttöku í Skagafjarðarrallinu sem verður um næstu helgi. „Ákveðið var að fara í Skagafjörðinn og aka þar frábærar sérleiðir um Mælifellsdal og Vesturdal. Og það stendur til að aka gömlu leiðina um Þverárfjall, sem rallýmenn fyrri tíma dásama enn í minningunni. Sögðu að Vegagerðin hefði eyðilagt eitt helsta íþróttamannvirki á Íslandi, þegar nýr vegur var lagður þarna fyrir nokkrum árum,“ segir hann.

Rétt sleppur fyrir fimmtugt

Það er ekki seinna vænna að efna loforðið því afmælið er í vikunni eftir rallið. Eins og kunnugir þekkja þá er undirbúningur fyrir rallið töluverður. Til dæmis þarf að finna hjálminn og gallann sem þurfa að standast öryggisskoðun eins og annað. Ætli flestir fari ekki út í skúr eða niður í geymslu til að finna dótið sitt en Páll Halldór þurfti að fara aðeins lengra til að sækja sitt. Hann þurfti að hringja á Dellusafnið á Flateyri og kanna hvort möguleiki væri á því að fá dótið lánað eina helgi því þar hafði hann komið öllum sínum bikurum, keppnisfatnaði og öðrum munum tengdum rallinu á þetta ágæta safn nærri æskustöðvunum. Það var nú ekki það eina því auk þess þurfti sérstakt leyfi frá keppnisstjórn til að hafa marga aðstoðarökumenn í sama rallinu, en reglur segja almennt að það skuli einungis vera einn slíkur. Dæturnar fimm vilja nefnilega allar vera með. Þær þurftu að finna sér galla og hjálma, heyra í hugsanlegum stuðningsaðilum, skoða leiðir, undirbúa bílinn og panta límmiða með nöfnum og blóðflokki allra um borð.

„Allt þetta er nú á lokametrunum. Flutningur er klár á bílnum norður og elskuleg eiginkonan fór með karlinn norður til að skoða og yfirfara gamlar leiðarnótur því dæturnar voru allar uppteknar í öðru. Hvað gera foreldrar ekki fyrir börnin sín? 790 kílómetra rúntur á laugardegi er bara hressandi, í það minnsta fyrir bílafjölskyldu sem þessa,“ segir Páll Halldór.

Margir hafa haft samband við Pál Halldór og vilja fylgjast með keppninni, auk þess sem nokkrir gamlir viðgerðamenn keppnisliðs Jópal verða með í för.

Í Skagafjarðarrallinu verða þónokkrir sem unnið hafa Íslandsmeistaratitilinn. Auk núverandi Íslandsmeistara er útlit fyrir að fjórir meistarar fyrri ára taki þátt sem er óvanalegt en einstaklega skemmtilegt.

„Vonandi kann maður enn að aka rallýbíl; „left foot“-bremsun, „leggj'ann“ fyrir og skera beygjur er tækni sem er vonandi enn til staðar, svona svipað og þegar maður hefur ekki farið á skíði í nokkur ár, en það kemur eftir nokkra metra,“ segir hann.

Markmiðið er þó að sjálfsögðu að njóta dagsins í þessu góða fjölskyldusporti og eflaust eiga margir eftir að fylgjast með gömlu meisturunum sýna gamla takta í keppninni.

Allar nánari upplýsingar um keppni helgarinnar er að finna á heimasíðu Bílaklúbbs Skagafjarðar, www.bks.is, en klúbburinn fagnar einmitt 25 ára afmæli um þessar mundir.

malin@mbl.is

Dæturnar eru fimm talsins. Talið frá vinstri: Rebekka Rós, Rebekka …
Dæturnar eru fimm talsins. Talið frá vinstri: Rebekka Rós, Rebekka Helga, Þórunn Eva, Auður Margrét og Sólveig Steinunn.
Hér er mynd frá árinu 2000 en þá hættu þeir …
Hér er mynd frá árinu 2000 en þá hættu þeir Jópal-bræður að keppa. F.v.: Páll Halldór og Sveinn Sigurður Jóhannessynir, Rebekka Helga, Auður Margrét og Sólveig Steinunn Pálsdætur. Ljósmynd/Páll Halldórsson
Kristín, eiginkona Páls, hjálpaði til við að breyta gömlum leiðarnótum …
Kristín, eiginkona Páls, hjálpaði til við að breyta gömlum leiðarnótum fyrir rallið í Skagafirði sem verður næstu helgi.
Hér sýnir Páll vinstri fótar bremsun, tækni rallökumanna.
Hér sýnir Páll vinstri fótar bremsun, tækni rallökumanna.
Rallgallinn hans Páls er geymdur á Dellusafninu á Flateyri og …
Rallgallinn hans Páls er geymdur á Dellusafninu á Flateyri og þangað var hann sóttur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: