Kia Sportage í fyrsta sæti í gæðakönnun

Kia Sportage.
Kia Sportage.

Kia Sportage varð í efsta sæti í flokki smærri jeppa í gæðakönnun J.D. Power fyrir Þýskaland. Alls tóku  18.000 ökumenn þátt könnuninni sem haldin er árlega í Þýskalandi.

Ökumenn voru beðnir um að svara hvernig þeir meta gæði, endingu og rekstrarkostnað bíla sinna.

Kia Sportage hlaut 836 stig af þúsund mögulegum í sínum flokki. Í öðru sæti varð Mitsubishi ASX með 828 stig og þriðji Ford Kuga með 819 stig. Í flokki stærri jeppa varð Volkswagen Touareg hlutskarpastur með 840 stig, í öðru sæti Porsche Cayenne með 840 og þriðji varð BMW X6 með 837 stig.

Kia átti tvo aðra fulltrúa en Kia cee’d varð í öðru sæti í flokki smærri bíla með 812 stig og Kia Rio í þriðja sæti í flokki örbíla með 813 stig. Í fyrrnefnda flokknum varð Seat Leon efstur með 823 stig og þriðji Toyota Auris með 811 stig. Í örbílaflokknum varð Toyota Yaris efst með 823 stig og í öðru sæti Citroen DS3 með 814 stig.

Kia komst í fyrsta skipti inn á topp 10 listann yfir bílaframleiðendur í könnuninni og hækkaði um fimm sæti frá árinu á undan. Hlaut 790 stig og náði tíunda sæti en efst varð Porsche með 835 stig. Í öðru sæti varð Toyota með 818 stig, þriðja Volvo, einnig með 818, í fjórða Mercedes-Benz með 811 stig og fimmta sæti Skoda með 805 stig.

Í fimmta til níunda sæti urðu Mitsubishi (800), Volkswagen (799), Mazda (794) og BMW með 793 stig.

mbl.is