Að víkja eða ekki víkja?

Iðulega liggur mikið við þegar ekið er með ljós- og …
Iðulega liggur mikið við þegar ekið er með ljós- og hljóðmerki og þá er eins gott að víkja. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Eitt af því sem ökumenn mega eiga von á í umferðinni er að sjúkra,- slökkvi- eða lögreglubíll komi á blússandi ferð með ljós og sírenur á.

Þrátt fyrir allt virðist oft vera sem margir komi af fjöllum þegar bíll í neyðarakstri kemur æðandi og sumir ökumenn víkja því miður seint og illa. Því er um að gera að rifja upp hvernig á að haga sér við þessar aðstæður.

Í 8. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 segir: „Nú notar ökumaður ökutækis, sem ætlað er til neyðaraksturs, sérstök hljóð- eða ljósmerki við akstur og skulu aðrir vegfarendur þá víkja úr vegi í tæka tíð. Ökumenn skulu nema staðar ef nauðsyn ber til. Ráðherra ákveður hvernig merkjum þessum skuli háttað. Þau má eingöngu nota þegar nauðsyn ber til og er stjórnanda ökutækisins skylt að taka tillit til annarra vegfarenda.“

Það er því engum vafa undirorpið að ljósin og sírenurnar eru einungis notuð í neyðartilvikum og þá ættu ökumenn að víkja eða stöðva bifreið sína til að greiða leið þess sem er í neyðarakstri.

„Þegar hljóðmerkið er líka á, er forgangurinn meiri. Við erum með forgang I og forgang II. Forgangur I er eitthvað mjög alvarlegt og brátt. Þá er undantekningarlaust farið með ljós og sírenur,“ útskýrir slökkviliðsmaðurinn og ökukennarinn Þorsteinn S. Karlsson. Ljósin nægja oftast í forgangi II.

Að lesa umferðina

Eitt af því sem einkennir góðan ökumann er hæfni hans til að lesa umferðina og ráða í viðbrögð annarra ökumanna við hinum ýmsu aðstæðum. Þannig má komast hjá óhöppum og með því að vera með athyglina á umferðinni ættu blá ljós í baksýnisspeglinum ekki að fara framhjá ökumanni. Stór þáttur í þjálfun bílstjóra slökkviliðsins í neyðarakstri er einmitt fólginn í því að ráða í viðbrögð annarra bílstjóra. „Ökumaður heyrir hljóðmerkið en þú þarft að gefa honum tíma og það má ekki setja hljóð- og ljósmerki á of seint. Ökumaðurinn verður að fá tíma til að hlusta, átta sig á hvaðan hljóðið kemur og tíma til að ákveða sig,“ segir Þorsteinn.

Viðbrögð ökumanna geta verið mjög góð en því miður, eins og minnst var á í upphafi, kemur fyrir að ökumenn annaðhvort heyra ekki hljóðmerkið eða hreinlega frjósa og bregðast ekki við.

„Maður hefur lent í því að vera á slökkvibílnum með hljóðmerki en vera bara fastur og ökumaðurinn fyrir framan gerir ekki neitt. Hann veit kannski ekki hvað hann á að gera og þetta skapar spennu og stress,“ segir hann.

Því er um að gera að rifja upp endrum og sinnum hvernig við sem ökumenn ætlum að bregðast við þegar bíll í neyðarakstri er á ferðinni. Þetta er eitt af því sem allir fara í gegnum þegar bílprófið er tekið og gott að rifja upp.

Góð myndbönd um viðbrögð ökumanna við neyðarakstri hafa verið gerð af Samgöngustofu og ættu ökumenn, ungir sem aldnir, að gefa þeim gaum á milli dagskrárliða í sjónvarpinu.

malin@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: