717 hestafla Dodge hleypt af stokkum

Dodge Charger SRT Hellcat er öflugasti stallbakur sögunnar.
Dodge Charger SRT Hellcat er öflugasti stallbakur sögunnar. mbl.is/Dodge

Hugtakið fjölskyldubíll hefur fengið nýja merkingu – í það minnsta í bílsmiðjum Dodge. Hefur bandaríski bílsmiðurinn nú hleypt af stokkum stallbak sem er hvorki með meira né minna en 717 hestafla aflgjafa í vélarhúsinu.

Hér er um að ræða bílinn Dodge Charger SRT Hellcat, sem er öflugasti stallbakur sögunnar. Og Dodge segir að hann sé einnig sá fljótasti.

Tölurnar tala sínu máli, en í bílnum verður 6,2 lítra HEMI Hellcat V-8 vél sem skilar 881 Newtonmetra togi og nær 100 km hraða úr kyrrstöðu á aðeins 3,7 sekúndum. Hámarkshraðinn verður 328 km/klst.

Við eftirgrennslan vikuritsins Auto, Motor & Sport fannst aðeins einn fjögurra dyra bíll sem komst í tæri við Dodge Charger Hellcat að afli. Þar er um að ræða 30 ára afmælisútgáfuna af BMW M5. Vélarafl hans er þó talsvert minna, eða 600 hestöfl, og togið 700 Nm.

Enn sem komið er hefur Dodge ekki gefið upp hvað þetta nýja orkubúnt, Heljarkötturinn, þarf af eldsneyti. Geta má sér til að það verði drjúgur sopi. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: