Eru hvorki „vænir“ né „hreinir“

Rafbíllinn Renault Zoe.
Rafbíllinn Renault Zoe. mbl.is/Renault

Rafbíla er hvorki hægt að auglýsa sem „græna“ né „mengunarfría“ eða „hreina“, samkvæmt niðurstöðum dómstóls sem fjallar um auglýsingasiðferði (JDP).

Í niðurstöðum sínum í máli sem snerist um sjálfsafgreiðslu bílaleigubíla í París og Lyon, sem eru af gerðinni Renault Zoe, segir dómstóllinn að auglýsing með yfirskriftinni „Vinnið gegn mengun, akið bíl“ væri villandi. Hún var hengd upp víða í París er gripið var til ráðstafana þar gegn mengun frá umferðinni.

Dómurinn sagði að fram væru settar vistfræðilegar og umhverfislegar fullyrðingar án skírskotana og samanburðar. Hann sagði einnig að notkun rafbíla hefði eftir allt áhrif á umhverfið vegna slits á íhlutum og rafhleðslu.

Þó svo að hann tæki undir það að rafbílar gætu stuðlað að því að mengun minnkaði sagði dómstóllinn: „Auglýsingin hvetur fólk blákalt til að brúka rafbíla til að minnka loftmengun. Það eru margir samgöngumátar aðrir sem almennt eru taldir betur til þess fallnir og minna skaðlegir umhverfinu, svo sem hjólreiðar og almenningssamgöngur. Boðskapur auglýsingarinnar gengur því gegn almennum forsendum sjálfbærrar þróunar.“

Var „viðeigandi“

Sér til varnar segir Renault að auglýsingin hafi verið „viðeigandi“ og verið birt er akstur á Parísarsvæðinu var takmarkaður. Rafbílar hafi verið undanþegnir banninu og ekki að ástæðulausu.

Það voru samtök notenda almannasamganga (FNAUT) er kvörtuðu undan auglýsingunni til JDP-dómstólsins í mars. Í öðru máli í apríl kvað hann upp þann dóm að sjálfsafgreiðslubílaleigurnar Autolib í París, Bluecab í Bordeaux og Bluely í Lyon hefðu brotið gegn góðri auglýsingasiðfræði með því að staðhæfa á heimasíðum sínum að bílar þeirra væru „vistvænir“ og „hreinir“.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: