Danir aftur í millistærðina

Skoda Octavia er af stærð sem Danir vilja í auknu …
Skoda Octavia er af stærð sem Danir vilja í auknu mæli. mbl.is/Skoda

Danir brugðust við kreppunni með því að taka fremur litla bíla fram yfir meðalstóra og stærri. Nokkur undanfarin ár hefur hlutdeild smábíla í markaðinum verið 60% en nú stefnir í breytingu þar á.

Aukning í sölu meðalstórra bíla er þó enn sem komið er hægfara en þessi bílaflokkur var áður fyrr sá langstærsti á dönskum vegum. Má þar nefna bíla eins og Volvo 144, sem árum saman var söluhæsta bílamódelið.

Nú fjölgar þeim sem sagt stöðugt sem velja meðalstóran bíl í stað minni bíla og ofursmárra. Einkum eru það minni bílar í milliflokknum, svonefndum Golfklassa, sem vinna á. Úr 15-20% hlutdeild síðustu árin í 25% skerf af heildarsölunni síðustu þrjá mánuðina.

Hagfræðingur hjá lánastofnuninni Nykredit segir engan vafa leika á því að danskir neytendur vilji gjarnan eignast ögn stærri bíla. Til að mæta þörfum fjölskyldunnar þurfi ýmist tvo smábíla eða einn stærri. Með hagstæðum tilboðum undanfarið, miklum verðlækkunum bílsmiða og aðlaðandi kaupleigusamningum geti nú borgað sig að kaupa frekar eða taka á kaupleigu einn bíl í millistærðarflokki en tvo minni.

Alls seldust 14.267 nýir bílar í Danmörku í júlí og stefnir þar með allt í að sett verði met í bílasölu þar í landi í ár. Á sex mánaða tímabili frá febrúar til júlíloka jókst sala minni millistærðarbíla um 15% og 39% þessa tvo mánuði miðað við í fyrra. Til samanburðar jókst sala á smábílum á þessu tímabili í fyrra um 18% en dróst saman um 16% í ár.

Það er einkum síðustu þrjá mánuðina sem smábílasalan skreppur saman, eða um 14%. Á sama tíma jókst sala á minni millistærðarbílum um 31%. Skoda Octavia er söluhæsti bíllinn frá áramótum með 2.754 eintök en rétt á eftir er Golf með 2.567 eintök. Í þriðja sæti er Nissan Qashqai með 1.927 eintök og Hyundai i20 með 1.712. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina