Saab fær ekki greiðslustöðvun

Eini bíllinn sem Saab smíðar nú er 9-3 Aero Sedan.
Eini bíllinn sem Saab smíðar nú er 9-3 Aero Sedan. mbl.is/NEVS

Sænskur dómstóll hefur hafnað að taka kínverska bílsmiðinn NEVS til skiptameðferðar en hann á og rekur bílsmiðjur Saab í Svíþjóð.

NEVS óskaði eftir að fá að vera í greiðslustöðvun meðan leitað væri nýrra fjárfesta til að leggja peninga í starfsemi Saab.

National Electric Vehicle Sweden (NEVS) var stofnað í júní 2012 til þess að yfirtaka Saab og koma starfseminni í gang aftur eftir gjaldþrot.

Héraðsdómur í bænum Vänersborg í suðvesturhluta Svíþjóðar sagði umsóknina um greiðslustöðvun hafa verið ófullnægjandi og ekki studd fullnægjandi gögnum. Hafi viðraðar lausnir á fjárhagsvandanum verið þokukenndar og með engu rökstuddar eða undirbyggðar með gögnum.

Talsmaður NEVS sagði að ákvörðuninni yrði áfrýjað. „Markmið okkar er að fá aukið rými til endurskipulagningar og munum gera allt til að verða við beiðni um frekari upplýsingar,“ segir talsmaðurinn, Mikael Östlund við fréttastofuna AFP.

Að sögn sænskra fjölmiðla hefur NEVS átt í viðræðum við indverska og kínverska bílsmiði, Mahindra og Dongfeng, um að fjárfesta í Saab og leggja sænska fyrirtækinu fé svo greiða megi upp miklar skuldir við byrgja og íhlutasmiði.

Að sögn fréttastofunnar TT nema þessar skuldir 400 milljónum sænskra króna, eða sem nemur tæplega 700 milljónum íslenskra króna.

Sem stendur framleiðir Saab einungis eitt bílamódel -  9-3 Aero Sedan - en NEVS hefur uppi áform um mikla sókn inn á kínverskan markað með úrvali rafbíla.

mbl.is