Hyggjast útrýma einkabílnum í Helsinki

Sporvagn á ferð í Helsinki en þar í borg eru …
Sporvagn á ferð í Helsinki en þar í borg eru almenningssamgöngur með þeim bestu í Evrópu.

Borgaryfirvöld í finnska höfuðstaðnum, Helsinki, hafa nú til umfjöllunar áætlanir sem gætu allt eins gert út af við einkabílinn þar í borg.

Verði ný samgönguáætlun að veruleika víkur einkabíllinn en í staðinn taka við samgöngur sem byggjast á skiptibílum, reiðhjólum, strætis- og sporvögnum.

Með aukinni bílanotkun hafa umferðarteppur orðið æ algengari og umfangsmeiri með árunum í Helsinki sem og öðrum borgum um heim allan. Með auknum umhverfiskröfum hafa yfirvöld víða stigið skref í þá átt að fækka einkabílum á götum þeirra, eða í það minnsta takmarka fjölgun þeirra á vegunum.

Nýju samgönguáætluninni sem er til meðferðar í borgarkerfinu í Helsinski er lýst sem „algjörum umskiptum“ frá því sem nú er. Í henni er m.a. gert ráð fyrir að íbúar greiði eitt flatt gjald sem ætlað er að dekka öll afnot þeirra af samgöngukerfi borgarinnar. Þannig gætu þeir auðveldlega farið þangað sem þá lystir hvenær sem þá lystir, „án þess að þurfa bíl“, eins og segir í skýrslu um nýja fyrirkomulagið.

Kerfið byggist á því að það svari eftirspurn notenda með því að bjóða þeim ýmsa ferðavalkosti. Er notandi hefur tilgreint hvert hann vill komast býður kerfið upp á bestu kostina til að komast þangað. Lykilatriði í því er þó það, að bifreið sé aðeins einn valkostur en ekki tæki sem allir borgarbúar telja sig þurfa eða vilja eiga.

Fyrir er í Helsinki að finna eitt af betri almenningssamgöngukerfum í Evrópu. Og þrátt fyrir frostharða vetur má sjá borgarbúa á þönum í alls konar veðri á reiðhjólum eða bara gangandi. En Helsinki er ekki eina borgin sem freistar þess að draga úr bílanotkun innan borgarmarkanna eða jafnvel útrýma bílum þaðan.

Í London hefur í rúman áratug verið spyrnt við ferðum bíla inn í miðborgina með háum gjöldum. Í kínverskum borgum, svo sem Peking og Sjanghæ, hefur umferð bíla einnig verið takmörkuð með sérstökum hamlandi mánaðarlegum kvótum á nýskráningar bíla. Og í Hamborg í Þýskalandi er verið að fjalla um áætlun sem myndi útrýma bílum með öllu úr miðborginni á næsta áratug eða svo.

Ýmsir bílaframleiðendur, þar á meðal BMW, Mercedes-Benz og Ford, eru farnir að bregðast við þróuninni með því að taka þátt í henni. Til að mynda með því að leggja áherslu á hugmyndina um samgöngumáta með skiptibílum, meðvitaðir um að það gæti verið eina leiðin fyrir bíla þeirra til að halda velli. Ljóst virðist alla vega vera að þróunin í þéttbýlissamgöngum sé víða á þann veg að þeir sem halda utan um skipulagsmálin ætli ekki að láta bílinn drottna í samgöngukerfum borga. Áætlunin sem verið er að undirbúa að hrinda í framkvæmd í Helsinki kann að vera róttæk en hún gæti verið forsmekkur að fleiri útfærslum sem átt geta eftir að draga úr hlutverki bíla í borgarsamgöngukerfum.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: