Jepparall að hætti Skota undir handleiðslu Skota

Í Skotlandi er rall á jeppum vinsælt og gæti notið …
Í Skotlandi er rall á jeppum vinsælt og gæti notið vinsælda hér á landi. Ljósmynd/Gunnlaugur Einar Briem

Lítið hefur farið fyrir jepparalli hér á landi undanfarið þó eitthvað hafi verið um það í gegnum tíðina.

Næstu helgi, laugardaginn 20. september, fer í fyrsta skipti fram Icelandic All Terrain Rally en hugmyndina að keppninni átti Skotinn Ian Sykes sem hefur verið búsettur hér á landi síðastliðin fjögur ár ásamt eiginkonu sinni. Þau hjónin heilluðust svo mjög af landi og þjóð þegar þau komu hingað fyrir nokkru og kepptu í Rally Reykjavík að þau ákváðu að setjast hér að.

Ekkert vitað um keppnisleiðir

Keppnisfyrirkomulagið er eins og í ralli, en þar er ekin fyrirfram ákveðin leið sem skipt er í ferjuleiðir og sérleiðir. Á ferjuleiðum er ekið í almennri umferð eftir umferðarlögum. Á sérleiðum er ekið í kappi við klukkuna og fengin undanþága frá hámarkshraða og þeim lokað fyrir almennri umferð meðan á keppni stendur. Þeim er einnig breytt í einstefnuakstursgötu meðan á keppni stendur. Keppendur fá ekkert að vita um keppnisleiðir fyrr en þeim er afhent leiðarbók áður en lagt er af stað. „Þessi keppni er byggð á sömu hugmynd og keppni sem ég var viðloðandi í Skotlandi,“ segir Sykes. „Þetta er eingöngu fyrir fjórhjóladrifsjeppa. Bílarnir mega ekki vera breyttir fyrir stærri dekk og er hámarksdekkjastærð þrjátíu og þrjár tommur,“ segir Sykes um þetta áhugaverða rall.

Þar sem ekkert er gefið upp um leiðirnar gefst ekki færi á að útbúa leiðarnótur eins og í hefðbundndu ralli. „Aðstoðarökumaðurinn skoðar vandlega leiðarbókina um leið og hann fær hana í hendur og segir bílstjóranum hvað er framundan með góðum fyrirvara. Aðstoðarökumaðurinn gerir grein fyrir hvað gæti verið framundan. Í leiðarbókinni eru fjarlægðarpunktar gefnir upp og merkingar um eitthvað sérstakt sem gæti verið á leiðinni,“ segir Sykes. Það má því gera ráð fyrir að spennan verði töluverð inni í bílnum!

Akstur og umhverfið

Ekki er gott að segja hvers vegna keppni sem þessi hefur ekki náð að festast í sessi. Sykes segir að viðhorf Íslendinga til jeppa geti spilað þar inn í. „Ég held að Íslendingar breyti jeppunum sínum til að nota sem vetrarleiktæki eða til að nota innan ferðaþjónustunnar og hvort tveggja gera þeir mjög vel. Þeir stunda rall á þar til gerðum bílum en hafa minna gert af því að nota jeppa í rall,“ segir hann en er bjartsýnn á að jepparallið nái að festa hér rætur.

Hann leggur áherslu á að jepparallið sé ekki umhverfisspillandi því einungis sé ekið eftir viðurkenndum vegum og slóðum því auðvitað er bannað að aka utanvega.

„Akstursíþróttir verða seint umhverfisvænar en við reynum hvað við getum. Vegirnir sem verða fyrir valinu eru mun grófari en venjulegir rallbílar myndu ráða við. Það heldur hraðanum niðri en það eru líka kaflar þar sem hægt er að gefa í, til dæmis á svörtum sandsléttum þar sem menn geta skemmt sér,“ segir hann.

Ekki hægt að stytta sér leið

Allir keppnisbílarnir verða búnir staðsetningarbúnaði til að hægt sé að fylgjast vandlega með ferðum hvers og eins meðan á keppni stendur. „Á sumum köflum gæti verið mjög freistandi að stytta sér leið þar sem akvegurinn fer yfir grasflatir vegna utanvegaaksturs annarra. Geri menn það munum við sjá það á staðsetningarbúnaðnum og hver refsingin kann að verða er enn ekki ljóst, en hún verður hörð,“ segir Sykes.

Enn er hægt að skrá sig til þátttöku í rallinu og er nánari upplýsingar að finna á vefnum www.iatr.info. Fjölmargir fræknir kappar hafa skráð sig til leiks og má þar á meðal nefna Dan Lofthouse sem er sigurvegarinn í British Cross Country Championships. Bræðurnir Þórður Andri og Guðmundur Orri Mckinstry munu keppa hvor í sinni Tomcat-bifreiðinni og verður gaman að sjá hvernig til tekst.

malin@mbl.is

Jepparallið Icelandic All Terrain Rally verður haldið næsta laugardag.
Jepparallið Icelandic All Terrain Rally verður haldið næsta laugardag. Ljósmynd/Gunnlaugur Einar Briem
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: