Smíða aðeins 10 eintök af Ferrari F60 America

Ferrari F60 America frumsýndur á Rodeo Drive í Beverly Hills …
Ferrari F60 America frumsýndur á Rodeo Drive í Beverly Hills við Los Angeles í Kaliforníu. mbl.is/afp

Ferrari hefur ákveðið að smíða afburða sportbíl sem fengið hefur nafnið Ferrari F60 America. Skírskotar það til þess að Ferrari hefur haldið úti starfsemi í Bandaríkjunum í 60 ár.

Þótt bíll þessi byggist á undirvagni F12 Berlinetta deilir hinn opni F60 America ekki einum einasta hluta yfirbyggingarinnar með F12-bílnum. Í leiðinlegu veðri geta ferðalangar skýlt sér frá hinu versta með hjálp léttrar blæju. Er hún það óburðug að með hana uppi er hámarkshraði bílsins takmarkaður við 120 km/klst.

F60 America verður knúinn sömu V12-vélinni og F12-bíllinn en hún er 6,3 lítra og krafturinn 545 kW og torkið 690 Newton-metrar. Með þetta afl undir húddinu kemst bíllinn úr kyrrstöðu í hundraðið á 3,1 sekúndu.

Sæti ökumanns verður klætt rauðu leðri en farþegasætið svörtu leðri og að öðru leyti er mikið lagt upp úr frágangi og bryddingum í innra rýminu. Strípur niður miðjuna á baki beggja sæta verða í bandarísku fánalitunum.

Eins og áður segir verða einungis smíðuð 10 eintök af F60 America. Herma fregnir að þeim öllum hafi verið ráðstafað. Fylgir og fregnum, að hinir heppnu eigendur þurfi að leggja 2,5 milljónir dollara á borðið fyrir eintakið. Jafngildir það 302 milljónum króna og eitt er víst: enginn hörgull var á mönnum sem fegnir vildu borga þetta verð fyrir bílinn sérsmíðaða. Og verðið er sjö sinnum hærra en það sem F12 Berlinetta kostar en í Bandaríkjunum hefur hún kostað 318.888 dollara á götuna komin.

F60 America var frumsýndur við athöfn um fyrri helgi í Bandaríkjunum. Var það í leiðinni kveðjuhóf fyrir Ferrari-stjórann fráfarandi, Luca di Montezemolo.

agas@mbl.is

Ferrari F60 America frumsýndur á Rodeo Drive í Beverly Hills …
Ferrari F60 America frumsýndur á Rodeo Drive í Beverly Hills við Los Angeles í Kaliforníu. mbl.is/afp
300 milljónir takk fyrir og slegist var um Ferrari F60 …
300 milljónir takk fyrir og slegist var um Ferrari F60 America.
Leðursæti ökumanns og farþega verða hvort í sínum lit.
Leðursæti ökumanns og farþega verða hvort í sínum lit.
Algengara er að Ferrari sé rauður en blár.
Algengara er að Ferrari sé rauður en blár.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: