Á ofsahraða og börnin beltislaus

Lögreglan hafði hendur í hári ökuníðingsins.
Lögreglan hafði hendur í hári ökuníðingsins.

Tæplega þrítugur maður frá Berwick-upon-Tweed í Norðymbralandi í Norðaustur-Englandi hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir hraðakstur. Gerði það sök hans verri að í bílnum voru fjögur ung börn og ekkert þeirra í bílbelti.

Maðurinn mældist á 240 km/klst hraða á A1 hraðbrautinni við Norman Cross skammt frá borginni Peterborough er lögreglumenn voru þar við umferðareftirlit. Hófu þeir eftirför og drógu Keith Millard um síðir uppi er hann varð að hægja ferðina í 145 km vegna þungrar umferðar.

Hlýddi hann skipunum um að stöðva bifreiðina sem var af gerðinni Mercedes 320. Við hlið hans í framsætunum var kona en í aftursætum voru sex mánaða tvíburar í ófestum barnastólum er sneru fram, eins árs stúlkubarn er lá sofandi í sætinu milli tvíburanna og loks tveggja ára drengur sem sat í fótarýminu fyrir framan aftursæti.

Ökuþórinn tjáði lögreglu að hann hafði ætlað að reyna að ná ferju frá Dover til Þýskalands eftir að hafa misst af ferju í Hull.

Við rannsókn kom í ljós að bíllinn var í eigu föður ökumannsins og hann var ekki tryggður til að aka honum. Honum var stefnt fyrir rétt og ákærður fyrir hættulegan akstur og akstur án gildrar tryggingar.  

Millard mætti ekki í réttinn við þingfestingu málsins og var síðar handtekinn er hann kom til Skotlands með flugi. Var hann fluttur í lögreglubíl til Peterborough en héraðsdómur þar dæmdi hann í 20 vikna fangelsi og svipti hann ökuréttindum til þriggja ára ásamt því að gera honum að borga jafnvirði 140 þúsund króna í málskostnað. Til að öðlast ökuréttindi á ný dæmdi rétturinn að hann yrði að gangast undir og standast sérstakt próf.

mbl.is