Ford bjargar flugvél

Frá undirbúningi myndatökunnar á Sandana-flugvelli í Noregi.
Frá undirbúningi myndatökunnar á Sandana-flugvelli í Noregi.

Bílsmiðir leita stöðugt nýstárlegra leiða til að vekja athygli á vöru sinni. Þannig leigði Ford flugvöll í Noregi og hélt þangað með 60 manna lið til að taka upp kynningarmyndband fyrir nýja kynslóð Mondeo-bílsins.

Kjarni auglýsingarinnar er sá að flugvél í neyð er leiðbeint inn til lendingar á myrkum flugvelli með díóðu aðalljósum bifreiðarinnar. Rob Cohen, leikstjóri kvikmyndarinnar „The Fast and the Furious“, stýrði verkinu.

Myndbandið verður notað í auglýsingaskyni fyrir Ford Mondeo hinn nýja og er hugmyndin með því m.a. að endurspegla margt af þeirri snjalltækni sem í bílnum verður að finna. Þar á meðal verður árekstrarvörn sem auðveldar ökumanni m.a. að leggja í stæði og forðast aðra bíla og gangandi vegfarendur.

Auk þess mun díóðuljósabúnaður Mondeo bílsins laga sig að birtuskilyrðum hverju sinni. 

Þá munu raddstýringar gegna mikilvægu hlutverki í bílnum. Segi ökumaður til að mynda upphátt að hann sé svangur birtist á skemmti- og upplýsingaskjá nærliggjandi veitingahús.

Auglýsingin verður einnar mínútna löng og verður frumsýnd í sjónvarpi á sunnudaginn kemur, 2. nóvember, í útsendingu á „Downton Abbey“-þætti.   Hún verður einnig aðgengileg á samfélagsvefjum sem Facebook, Twitter, Google+ og Instagram svo og á 
YouTube.

mbl.is

Bloggað um fréttina