Mini-fjölskyldan minnkar

Fulltrúar Mini-fjölskyldunnar.
Fulltrúar Mini-fjölskyldunnar.

Þriðja kynslóð Mini mun takmarkast við fimm einstök bílamódel í stað sjö nú, að sögn eins af æðstu mönnum BMW, sem á bresku Mini-smiðjurnar.

Sem stendur er Mini framleiddur í eftirtöldum módelum: 3ja og 5 dyra hlaðbakar,  Countryman, Paceman, Convertible, Roadster og Coupe. Hætt verður smíði Roadster, Coupe og  Paceman sem hverfa er núverandi kynslóð Minibíla verður leyst af hólmi.

Fyrsta fulltrúa nýrrar kynslóðar af Mini Clubman verður hleypt af stokkum á næsta ári og verður þriðji fulltrúi þriðju kynslóðar Mini sem sér dagsins ljós. Þeir hinir fyrri eru hlaðlbakarnir tveir. 

Fjórða módelið verður arftaki Countryman en ekkert hefur verið látið uppi um fimmta og síðasta meðlim fjölskyldunnar. Sérfræðingar spá því að þar verði um blæjubíl að ræða.

Þá segir fyrrnefndur fulltrúi BMW, að hugsanlega muni Mini tengiltvinnbíll sjá dagsins ljós á næstu fimm árum.

Ástæðan fyrir fækkuninni í Mini-fjölskyldunni eru nýjar áherslur til framtíðar fyrir smábílinn. Muni bíllinn aðlagast nýjum kröfum, straumum og stefnum heilmikið á næstu árum.

Meðal annars hefur sú þróun átt sér stað að kaupendur Mini hafa í vaxandi mæli undanfarin misseri valið aflmestu útgáfur bílsins, ólíkt því sem áður var. Þannig hefur sala á Cooper S bílnum aukist úr 25%  af heildarsölu Minibíla í 34%. Þá nemi JCW módel 5% af heildarsölunni.

Fulltrúar Mini-fjölskyldunnar.
Fulltrúar Mini-fjölskyldunnar.
mbl.is