Ný tækni sér í gegnum hurðarpósta

Framrúðustafirnir gagnsæir í tilraunabíl Jaguar Land Rover. Við blasir að …
Framrúðustafirnir gagnsæir í tilraunabíl Jaguar Land Rover. Við blasir að útsýnið verður ólíkt betra.

Breski bílsmiðurinn Jaguar Land Rover hefur verið að þróa nýja tækni sem gerir meðal annars kleift að „sjá“ í gegnum hurðarpósta, öðru nafni burðarstafi. Um er að ræða gervigreindarframrúðu sem gagnast gæti vel í borgarumferð.

Innsýn í þessa hugmyndafræði var veitt fyrr á árinu í Land Rover Discovery Vision-hugmyndabílnum, en raunveruleikatæknin gengur út á að gefa ökumanni hringsýn um bílinn, þ.e. útsýni hringinn í kringum hann.

Skjám er komið fyrir að innanverðu í hverjum hurðarpósti, eða staf. Þeir eru mataðir í sífellu á myndum frá myndavélum utan á bílnum sem mynda m.a. svæði sem ella sæjust ekki vegna blinda punktsins.

Að sögn Jaguar Land Rover fær ökumaður með þessari tækni góða mynd af umhverfinu, þar á meðal af hjólreiðamönnum, gangandi vegfarendum og farartækjum umhverfis bílinn. Í hvert sinn sem ökumaður hreyfir höfuðið eða gefur stefnubreytingar til kynna verður hægri eða vinstri stafur við framrúðuna „gegnsær“.

Og með því að tengja gervigreindarframrúðuna við netský má kalla fram á henni upplýsingar sem birtast í sjónlínunni. Til dæmis laus bílastæði í nágrenninu og bensínverð á einstökum bensínstöðvum, svo eitthvað sé nefnt.

Helsti kostur þessarar nýju tækni, sem enn á nokkuð langt í land með að verða að veruleika, er að ökumaður losnar við heilmikið stress sem fylgir akstri í þéttbýli, eins og til dæmis að leita að stæði.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: