Ál-Ford F-150 pallbíll ársins

Ford F-150 álbíllinn.
Ford F-150 álbíllinn.

Álbíllinn Ford F-150 af árgerðinni 2015 hefur verið útnefndur pallbíll ársins í Bandaríkjunum og Kanada. Skýrt var frá niðurstöðunni á bílsýningunni í Detroit. 

Alls tóku 57 alþjóðlegir blaðamenn þátt í kjörinu en niðurstöður þeirra byggjast á einkunnagjöf fyrir til dæmis hönnun, meðfærileika, nýjunga, öryggi, verðmæti og akstursánægju.

Ford F-150 bíllinn gekkst undir meiriháttar breytingar fyrir smíði 2015-módelsins. Þar stendur hæst að notað er ál í yfirbyggingu og byrðing bílsins í stað stáls áður. Með því var hægt að lækka eigin þyngd bílsins um 317 kíló. Þá þykir hann mun betri meðfæris, sparneytnari auk þess sem bæði hröðun og hemlar eru skilvirkari en fyrr. Jafnframt er dráttargeta hans meiri.

Þetta er í áttunda sinn sem pallbíll frá Ford er valinn pallbíll ársins í Norður-Ameríku frá því Detroit-sýningin var haldin á ný árið 1994 eftir uppstokkun. Meðal bíla sem í úrslit komust nú voru Chevrolet Colorado og Lincoln MKC.

mbl.is