Bíll með hóflega vélarstærð skiptir miklu máli

Bílvélin þarf að vera nógu stór til að ráða við …
Bílvélin þarf að vera nógu stór til að ráða við bílinn, en of kraftmikil vél er hins vegar bara byrði, bæði í umhverfislegu og fjárhagslegu tilliti auk þess sem á Íslandi er leyfilegur hámarkshraði hvergi hærri en 90 km/klst.. ) mbl.is/RAX

Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur í Borgarnesi, segist líkt og flestir aðrir eigendur bíla velta fyrir sér leiðum til að draga úr eldsneytiskostnaði, en eldsneyti er einn stærsti liðurinn í heimilisbókhaldi margra.

Fjölskylda Stefán á samtals þrjá bíla, þar af einn rafmagnsbíl. Stefán segir að þeir bílstjórar sem vilja lækka eldsneytiskostnaðinn þurfi nauðsynlega að tileinka sér vistakstur, sem dragi verulega úr eyðslunni. Stefán Gíslason gefur lesendum að þessu sinni góð ráð til að draga úr eldsneytiseyðslu.

Annað aksturslag á rafbíl

„Í vistakstri felast virkilega stór tækifæri til sparnaðar, hvort sem við erum að tala um heimilisbókhaldið eða rekstur fyrirtækja. Þannig eru til sláandi góð dæmi um mikla lækkun olíureikninga hjá stórum flutningafyrirtækjum sem gera út heilan flota af ökutækjum til flutninga á fólki og vörum. Menn geta lært vistakstur á námskeiðum, en svo er líka svolítið gaman að upplifa hvernig aksturslagið hjá manni breytist nánast sjálfkrafa við að eignast rafbíl. Þar skiptir sparnaðurinn litlu máli fyrir budduna, en vegna þess hve drægnin er ennþá takmörkuð lærir maður fljótt af reynslunni að umgangast bílinn með allt öðrum og sparneytnari hætti en maður er vanur,“

Stefán bendir fólki á að velja bíl með hóflega vélarstærð, næst þegar skipt verður um bíl.

„Vélarstærðin skiptir miklu máli fyrir eldsneytiseyðsluna og þar með kostnaðinn. Þar eru minnstu vélarnar ekki endilega bestar. Vélin þarf í öllu falli að vera nógu stór til að ráða við bílinn. En of kraftmikil vél er hins vegar bara byrði, bæði í umhverfislegu og fjárhagslegu tilliti. Á Íslandi er leyfilegur hámarkshraði hvergi hærri en 90 km/klst., þannig að vélin þarf ekkert endilega að geta komið bílnum á 200 km hraða. Og það skiptir líka sáralitlu máli hvort bíllinn er 4 eða 12 sek. úr kyrrstöðu upp í hundraðið. Vélin má bara ekki vera svo lítil að hún erfiði allan tímann og dugi ekki til venjulegs framúraksturs á íslenskum þjóðvegi. Sé maður í vafa um hvað sé nóg er upplagt að skoða reiknivélar Orkuseturs með upplýsingum um mismunandi eyðslu mismunandi tegunda.“

220 þúsund króna sparnaður

Eins og fyrr segir á fjölskylda Stefáns rafmagnsbíl. Hann segir að reynslan af bílnum sé í flestum tilvikum góð.

„Augljósasti kosturinn við rafbílinn er auðvitað eldsneytissparnaðurinn. Ég er búinn að eiga rafbíl í hálft ár og á þeim tíma hef ég keyrt hann um 12.000 km. Bensínbíll sem eyðir 10 l/100 km þarf 1.200 lítra til að komast þá vegalengd. Sá skammtur kostar 240.000 kr. miðað við 200 kr/l, þ.e. um 20 kr/km. Á þessu hálfa ári sem liðið er hef ég notað eitthvað um 2.880 kwh á rafbílinn. Þær kosta 40.320 kr. miðað við 14 kr/kwh. U.þ.b. helminginn af þessu rafmagni hef ég fengið gefins á hraðhleðslustöðvum, þannig að rafmagnsreikningurinn er kominn í u.þ.b. 20.000 kr. það sem af er. Ég gæti því verið búinn að spara um 220.000 kr. í eldsneyti, eða um 18 kr/km. En hér miða ég jú við býsna eyðslufrekan bensínbíl. Í reynd er sparnaðurinn þó enn meiri, því að annar rekstrarkostnaður rafbíla er líka mun lægri en bensín- og dísilbíla. Bíllinn á t.d. ekkert erindi á smurstöð, púströrið bilar aldrei og almennt talað getur miklu færra farið úrskeiðis en í venjulegum bíl. Ég hef séð einhverja útreikninga sem benda til að sparnaður í rekstri sé um 80% miðað við bensínbíl. Hins vegar eru rafbílar enn eitthvað dýrari í innkaupum, en með þeim skattaívilnunum sem eru í gildi er munurinn ekki svo ýkja mikill. Þannig kostar nýr Nissan Leaf rafbíll 4,0-4,5 milljónir í dag, en lítið eitt minni Nissan Pulsar kostar 3,5-4,0 milljónir með bensín- eða dísilvél.“

karlesp@simnet.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina