Ný kynslóð Renault Laguna í júlí

Ný kynslóð Renault Laguna kemur í sumar.
Ný kynslóð Renault Laguna kemur í sumar.

Ný kynslóð af Renault Laguna verður kynnt til sögunnar í júlí í sumar en bíllinn kemur síðan á götuna úr fjöldaframleiðslu síðsumars og í haust.

Franska bílablaðið Argus segir að nýr Laguna verði kynntur til leiks 6. júlí og auk þess að koma í stað fyrri kynslóðar samnefnds bíls er hann einnig hugsaður sem arftaki Renault Latitude.

Hann verður bæði fáanlegur sem stallbakur og langbakur en tveggja dyra útgáfu bílsins verður hætt vegna dræmrar eftirspurnar eftir þannig bíl.

Nýr Laguna verður byggður upp af svonefndum CMF-undirvagni sem Renault hefur þróað í samstarfi við Nissan. Er hann sagður bjóða upp á betri aksturseiginleika en núverandi undirvagn býður upp á.

Bíllinn verður ögn stærri en núverandi Laguna og hjólhafið lengra sem skilar sér í rúmbetri farþegaklefa. Sem staðalbúnaður verður annarrar kynslóðar R-Link upplýsinga- og hljómflutningstæknin, og sjónlínuskjár eins og í Renault Espace; demparakerfi sem lagar sig að yfirborðsaðstæðum; skriðstillir; búnaður er greinir umferðarmerki; L-laga dagljós sem eru innbyggð í díóðu aðalljós, hálfsjálfvirkur búnaður til að leggja í stæði og margt annað.

Þessi nýi meðalstóri fjölskyldubíll verður smíðaður í  Georges Besse bílsmiðjunni í Douai í Frakklandi.

mbl.is