Náði 223 km hraða á fjallahjóli

Eric Barone með fák sinn að lokinni metsláttunni í brekkunni …
Eric Barone með fák sinn að lokinni metsláttunni í brekkunni sem er í baksýn, hægra megin á myndinni.

Franskur ofurhugi að nafni Eric Barone gerði sér lítið fyrir um nýliðna helgi og setti hraðaheimsmet á reiðhjóli, ók á 223,3 km/klst. hraða. Afrekið vann hann í snarbrattri skíðabrekku skammt frá bænum Gap í frönsku Ölpunum.

Brautina á Vars-skíðasvæðinu höfðu snjótroðarar pakktroðið fyrir heimsmetstilraunina. Er hún einn kílómetri að lengd, ofurbrött og yfirborðið fryst í þágu hraðans.

Barone, sem er 55 ára, hefur sett fjölda hraðameta, bæði á snæviþöktum brautum og malarbrautum. Hjól hans hafa verið sérlega hönnuð til að þau veittu sem minnsta loftmótstöðu.

Heppinn að sleppa lifandi

Gamla metið átti Barone sjálfur, hljóðaði á 222 km hraða og var það sett á franska skíðasvæðinu Les Arcs í Ölpunum árið 2000. Þá er hann og handhafi hraðamets í malarbraut en það er 172 km/klst. og sett á Cerro Negro-eldfjallinu í Níkaragva.

Barone, sem gengur undir uppnefninu Rauði baróninn í heimalandi sínu, á annars heldur óskemmtilegar minningar af Svartfjalli, eldfjallinu í Níkaragva. Og eiginlega kraftaverk að hann gat að nýju slegið hraðamet sitt. Er hann setti malarmetið brotnaði hjólið með þeim afleiðingum að Barone skall á stórgrýti. Var hann í raun heppinn að sleppa lifandi vegna meiðsla sinna er hann hentist af hjólinu á 170 km hraða. Meðal annars brotnuðu sex rifbein og lærleggur, hann hruflaðist illa á báðum öxlum, tognaði hér og þar um líkamann og andlitið var blátt og svart af mari. Næstu fjögur ár voru kvalafull því hann varð að gangast undir fjölda skurðaðgerða og óteljandi klukkustunda endurhæfingu áður en hann náði vissu jafnvægi í hreyfingar sínar.

Það tók hann enn lengri tíma að öðlast aftur fullt sjálfstraust. Svo mjög að hann snerti ekki reiðhjól í átta ár. „Ég ákvað að hætta öllu, forgangsatriðin höfðu breyst og ég var kvæntur maður og tveggja barna faðir,“ segir Barone. En það átti eftir að breytast og hann settist aftur á bak reiðhjólum. „Nýja tilraunin var áskorun um að verða andlega sterkari en fyrir slysið.“

Barone varð á sínum tíma tvisvar Evrópumeistari í fjallahjólreiðum fyrir tuttugu árum, þegar hann var 35 ára að aldri. Hann kveðst ekki vita hvað það er sem knýi hann til að bæta metin. En hann játar því að vera athyglissjúkur.

agas@mbl.is

Eric Barone við fák sinn eftir nýjasta hraðametið.
Eric Barone við fák sinn eftir nýjasta hraðametið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: