Býður upp á bensínknúna geðveiki

Aflið í Zombie er yfirdrifið án Nítró en með gusu …
Aflið í Zombie er yfirdrifið án Nítró en með gusu af gasi fær hann 300 hestöfl í viðbót við þau 800 sem fyrir eru. Upplifunin er ekki ósvipuð því sem búast má við í listflugvél.

Svanur Örn Tómasson er húsasmiður en rekur partasölu og verkstæði og keyrir svo torfærukeppnisbíl í flestum sínum frístundum ásamt sonum sínum. Hann er einnig að leggja snörur sínar fyrir erlenda ferðamenn eins og svo margir um þessar mundir.

Eflaust mun það sem hann býður upp á freista margra eins og til dæmis blaðamanns Morgunblaðsins, því þegar Svanur hringdi í hann og spurði hvort hann þyrði að setjast upp í torfærubíl með þeim var svarið umsvifalaust já. Skroppið var því annan í páskum upp í Jósefsdal þar sem Svanur keyrði með tvo Breta og undirritaðan.

Kostar 150.000 kr á manninn

Á meðan beðið var eftir því að bílarnir væru klárir sem og kúnnarnir bresku spjallaði blaðamaður við Svan í vel útbúinni rútu Off Road Iceland. „Ég er stærsti eigandinn en strákarnir eiga þetta með mér, Aron Ingi Svansson og Ragnar Már Svansson,“ sagði Svanur stoltur.

„Við erum að þreifa okkur áfram að keyra með útlendinga eða þá sem þess óska á torfærubílunum okkar. Það er kannski frekar að útlendingarnir tími því þar sem að ferðin kostar 150.000 kr. á manninn. Hver ferð er um það bil 6-7 mínútur en ef fleiri koma með kostar viðbótarmanneskjan 45.000 kr. Það er talsvert dýrt fyrir okkur að koma okkur á svæðið með mannskap og tæki og því þarf þetta að kosta svona.“

Svanur og Aron Ingi byrjuðu að keppa í fyrra en Ragnar Már er búinn að vera tvö sumur. „Við stofnuðum Off Road Reykjavík í fyrra en þegar við keyptum svo Off Road Iceland í vetur að þá fengum við þessar gryfjur hér í Jósepsdalnum með til að nota. Það leyfir okkur meiri markaðssetningu og að keyra þetta meira af stað sem ferðamennsku. Við viljum helst hafa rútuna með í þessum ferðum því að hún er vel búin og er með salerni ef einhver verður hræddur og þarf að hlaupa á klósettið,“ segir Svanur og hlær.

Blaðamaður er svo sem ýmsu vanur þegar kemur að því að prófa öflug og skemmtileg tæki en fór við þessi orð að velta því fyrir sér hvort að hann væri kominn með hausinn í ljónagryfjuna.

Fékk góða flugferð

Þá var allt orðið klárt fyrir ferðina með fyrri ferðamanninn sem var orðinn opineygður af spenningi. Svanur settist upp í Insane-bíl sinn sem er 640 hestöfl og sérlega sterkbyggður. Hann var smíðaður í Noregi en keyptur hingað til lands í fyrra. Hann er með 427 Small Block LS7 vél og Monterglide-skiptingu eins og Monstertruck-bílarnir og á að þola 3.500 hestöfl.

Eftir nokkrar góðar ferðir í bröttum brekkunum í Jósefsdal lét Svanur vaða í stærstu brekkuna og sló ekkert af. Bíllinn fór í loftköstum yfir brekkubrúnina og lenti á framendanum og velti sér svo rólega á toppinn. Breski ferðamaðurinn var að vonum ánægður með þennan óvænta kaupauka og bókstaflega skoppaði af ánægju þegar hann var kominn úr bílnum.

Næst í röðinni var eiginkona hans sem lét ekki veltu eiginmannsins stoppa sig frá því að fara nokkrar góðar salíbunur á bíl Arons Inga og heyrðust öskrin í henni nokkrum sinnum yfirgnæfa vélarhljóðin. Bíll Arons Inga heitir Zombie og er ekki síður öflugur en hann er með 468 mótor með beinni innspýtingu og skilar 800 hestöflum fyrir utan Nítró. Verið var að tölvustilla innspýtinguna á meðan á öllu þessu stóð og þegar verið var að óla blaðamann Morgunblaðsins niður í sætin heyrði hann sagt að gefa þyrfti honum nokkrum sinnum vel inn í næstu ferð til að innspýtingin næði að endurstilla sig. Það var líka reyndin í ferðinni því að bíllinn fékk vænar inngjafir hvort sem hann var á leiðinni upp eða niður.

Drulla og snjór gengu í allar átti svo að gleraugun urðu ógegnsæ á svipstundu og fengu þau því að fjúka svo að hægt væri að njóta upplifunarinnar sem kemst kannski næst því að sitja í listflugvél. Áður en varði voru þessar mínútur liðnar og ferðin að baki en hver einasta sekúnda grafin inn á harða diskinn í minningunni.

Mælir blaðamaður með þessari geðveiki við hvern sem er, ef viðkomandi er á annað borð til í að láta sig hafa það. Hægt er að setja sig í samband við þá Svan og syni gegnum gömlu heimasíðu þeirra, www.offroadreykjavik.is ef einhver vill prófa strax. njall@mbl.is

Njáll Gunnlaugsson

Aðstoðamenn koma bílnum á réttan kjöl og að sögn Svans …
Aðstoðamenn koma bílnum á réttan kjöl og að sögn Svans er aðstoð þeirra ómetanleg og í raun og veru óframkvæmanlegt að standa í keppni án þeirra.
Insane fer í loftköstum yfir hæðina með öll sín 640 …
Insane fer í loftköstum yfir hæðina með öll sín 640 hestöfl á útopnu.
Allir brosandi út að eyrum eftir að búið var að …
Allir brosandi út að eyrum eftir að búið var að koma bílnum á réttan kjöl. Svanur er lengst til vinstri og breski ferðamaðurinn ennþá með hjálminn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: