Askja afhenti söfnunarfé úr geðveikri jólalagakeppni

Freyja Leópoldsdóttir, Jón Trausti Ólafsson, Vilmundur Gíslason, Berglind Sigurgeirsdóttir, Gerður …
Freyja Leópoldsdóttir, Jón Trausti Ólafsson, Vilmundur Gíslason, Berglind Sigurgeirsdóttir, Gerður Gústavsdóttir og Áslaug Guðmundsdóttir við afhendingu söfnunarfjársins.

Hið frumsamda jólalag Bílaumboðsins Öskju, ,,Hver einustu jól með þér" bar sigur úr býtum og hlaut titilinn ,,Geðveikasta jólalagið" í jólalagakeppni fyrirtækja í desember sl. Markmið keppninnar var að minna á geðrækt á vinnustöðum.

Að auki sigraði Askja söfnunarhluta keppninnar og safnaði samtals 1.379.250 kr. til styrktar Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra. Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, og Freyja Leópoldsdóttir markaðsstjóri afhentu styrkinn í gær og kynntu sér í leiðinni starfsemi styrktarfélagsins.

,,Við erum afar ánægð að geta lagt þessu góða málefni lið. Hjá félaginu er unnið mjög mikilvægt starf en á Æfingastöðinni fer fram umfangsmesta sjúkra- og iðjuþjálfun barna og ungmenna á landinu. Starfsfólk Öskju valdi málefnið sjálft og við erum sannfærð um að styrkurinn muni koma að góðum notum,” segir Jón Trausti sem var einnig stoltur af sönghæfileikum síns fólks hjá Öskju í jólalagakeppninni.

,,Við hjá Styrktarfélaginu erum þeim hjá Öskju virkilega þakklát fyrir þennan veglega styrk. Styrkir sem þessir skipta starfsemina verulegu máli en það gerir okkur kleift að bæta aðstöðu, þróa starfið og byggja upp enn frekar - börnunum og fjölskyldum þeirra í hag,” segir Berglind Sigurgeirsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Styrktarfélagsins.

mbl.is