Konungur töffaranna

Flóttinn mikli var myndin sem gerði alþjóðlega stjörnu úr Steve …
Flóttinn mikli var myndin sem gerði alþjóðlega stjörnu úr Steve McQueen. Kappinn var enda í essinu sínu í aðalatriði myndarinnar er hann stekkur á mótorhjóli yfir gaddavírsgirðingar fangabúða nasista, áleiðis til frelsis.

Þann 24. mars síðastliðinn voru 85 ár liðin frá því Terence Steven McQueen fæddist í úthverfi borgarinnar Indianapolis í Bandaríkjunum.

Faðir hans yfirgaf konu sína og son þegar sá stutti var aðeins 6 mánaða gamall og mamman var bæði drykkfelld og ábyrgðarlaus gagnvart syni sínum. Æskan var ekki beysin en að líkindum varð þar til sá sprengikraftur uppreisnar og kæruleysis sem gerði hann síðar að einni skærustu stjörnu kvikmyndanna. Bílar og mótorhjól voru rauði þráðurinn í lífi hans og hann fléttaði tryllitæki inn í kvikmyndahlutverk sín hvenær sem færi gafst, ásamt því að bruna um götur borga og sveita hverja lausa stund í frítíma sínum.

Komst til manns í hernum

Hinn ungi McQueen lenti snemma á refilstigum og var í viðvarandi uppreisn gegn öllu og öllum. Hann fékk enga jákvæða endurgjöf frá umhverfi sínu fyrr en hann var sendur í heimavistarskólann Boys Republic, sem var þá hálfgert upptökuheimili. Í framhaldinu gekk hann í sjóherinn og náði þar að mörgu leyti áttum. Hin myrka og óstýriláta hlið hans braust þó reglulega fram og alls var hann dæmdur til dagvistar í herfangelsi 41 sinni meðan hann var í sjóhernum og næstum jafn oft lækkaður í tign úr undirforingja í óbreyttan hermann. Engu að síður lauk hann herþjónustu með sæmd og lagði þá land undir fót um Bandaríkin meðan hann gerði upp við sig hvað hann vildi verða. Hann hafði í sig og á með uppvaski, skógarhöggi, farandbóksölu og ýmsu fleira, þangað til hann kom loks til New York, snemma á sjötta áratugnum. Þar leist honum vel á að spreyta sig á leiklistinni – fyrst í stað því þar virtist enginn endir á huggulegu kvenfólki – en fljótlega kom í ljós að honum var ekki alls varnað þegar að leikrænni tjáningu kom. Árið 1956 bauðst honum aukahlutverk í vestraþáttaröðinni Wanted: Dead Or Alive og vakti hann þegar í stað á sér athygli. Í fyrsta sinn á ævinni hafði hann nokkurt fé á milli handa og megninu af því varði hann þegar í stað í rennilega bíla og mótorhjól.

Stökkið upp á stjörnuhimininn

Það var svo í stríðsmyndinni Flóttinn mikli, eða The Great Escape frá 1963, sem McQueen varð endanlega einn frægasti og vinsælasti leikari heims. Ekki leist honum ýkja vel á hlutverk sitt fyrst í stað en þegar hann hafði talið handritshöfunda myndarinnar á að bæta mergjuðum mótorhjólasenum við myndina fyrir sinn karakter leit málið betur út og úr varð einn frægasti flótti kvikmyndasögunnar, þegar McQueen tekur fyrst væna atrennu og stekkur svo á mótorhjólinu yfir gaddavírsgirðingar nasistanna. Kvikmyndahúsagestir fögnuðu gríðarlega og stökkið á hjólinu endaði ekki fyrr en á stjörnuhimni Hollywood. Allt gekk honum í vil nema hvað löggan átti það til að sekta hann og jafnvel handtaka fyrir ofsaakstur.

Það má svo segja að sama kaldhæðnin hafi umleikið annað af frægustu hlutverkum hans, þar sem hann leikur hinn ljónharða lögregluforingja Frank Bullitt í samnefndri spennumynd frá 1968. Þar sem McQueen hafði margoft komist í kast við lögin, bæði sem unglingur og líka sem ökufantur, hafði hann fyrirvara á lögreglunni og um leið lítinn áhuga á að leika löggu. En þegar í ljós kom að í myndinni ætti að vera einn æðisgengnasti bílaeltingaleikur kvikmyndasögunnar kom annað hljóð í strokkinn og leikarinn hellti sér í hlutverkið. Ekki spillti að Bullitt lögregluforingi er í myndinni maður sem fer sínar eigin leiðir og kemst ítrekað í kast við yfirmenn sína hjá lögreglunni. Afraksturinn er ekkert minna en sögulegur, eltingaleikurinn um hæðóttar götur San Francisco er goðsögn á sínu sviði og McQueen naut sín ofan í tær við að aka bíl sínum sjálfur og þverneitaði að láta áhættuleikara um gamanið. Myndin sló í gegn og þó hin íðilfagra Jacqueline Bisset hafi verið mótleikkona stjörnunnar var hans helsti mótleikari óneitanlega hinn 325 hestafla Ford Mustang GT Fastback 390 V8, í litnum Highland Green.

Ófeigum ekki í hel komið

Meðfram því sem vegur hans og velmegun óx blés vitaskuld bílasafnið út sömuleiðis. Hann þeysti kæruleysislega um á hraðskreiðum sportbílum eða mótorhjólum og skeytti lítt um eigið öryggi. Vinum og ættingjum þótti nóg um en hann skellti við skollaeyrunum enda virtist helsti töffari Hollywood með öllu ósnertanlegur. Það kom svo berlega í ljós að McQueen var einfaldlega ekki feigur þegar góð vinkona hans, leikkonan Sharon Tate, bauð honum til kvöldverðar að heimili hennar í Los Angeles. Hann þáði boðið en hitti einhverja kvensu á leiðinni og hélt til næturgamans með henni, frekar en að mæta í umræddan kvöldmat. Það reyndist honum til lífs því seinna sama kvöld réðust uppdópaðir og vitskertir meðlimir hinnar svokölluðu fjölskyldu Charles Manson inn á heimili Tate og sniðu henni og gestum hennar rauðan stakk, án nokkurrar miskunnar. McQueen, sem aldrei lét nokkurn hlut koma sér úr jafnvægi, var svo illa brugðið að hann gekk með byssu á sér um skeið í kjölfarið.

Árið 1970 var Steve McQueen að líkindum vinsælasti og eftirsóttasti leikari samtímans og því gat hann beitt áhrifum sínum til að láta framleiða draumaverkefnið, kappakstursmyndina Le Mans sem fjallar um samnefndan þolakstur í Frakklandi. Myndin varð fokdýr í framleiðslu en floppaði í miðasölunni og stjarnan tók það verulega nærri sér.

Kappinn dregur sig í hlé

Árið 1974 var McQueen nokkurn veginn orðinn fullsaddur á Hollywood og ákvað að draga sig alfarið í hlé. Tíma sínum varði hann í samveru með fjölskyldunni og svo vitaskuld bíla og mótorhjól. Þegar leið á áratuginn og hann nálgaðist fimmtugt fékk hann nýja faratækjadellu, sem snerist um að fljúga litlum eins hreyfils vélum úr stríðinu. Eins og við var að búast supu vinir á jörðu niðri hveljur meðan hann flaug lágflug á ofsahraða, velti vélinni til og frá og daðraði við dauðann eins og svo oft áður. En alltaf lenti hann heilu og höldnu fyrir rest.

Það var svo árið 1979, er hann var við tökur á myndinni The Hunter, að hann tók eftir því hve andstuttur hann var og gjarn á að fá fyrirvaralaus hóstaköst. Í ljós kom að kappinn var með illvígt lungnakrabbamein sem dró hann til dauða á nokkrum mánuðum.

Bílasafn hans var án hliðstæðu þegar hann lést og þegar perlur úr því safni rata á uppboð, sem gerist endrum og sinnum, fæst oftar en ekki metverð fyrir, bæði af því bílarnir eru einkar glæsilegir og ekki spillir fyrir að eigandi þeirra var töffari allra töffara. Þrátt fyrir glys og glaum Hollywood, og allan þann lúxus sem hann hafði þar við höndina, sagði hann oftar en einu sinni: „Einu skiptin sem ég slaka raunverulega á og er ég sjálfur, eru þegar ég er annaðhvort að aka hraðskreiðum bíl eða mótorhjóli.“

jonagnar@mbl.is

McQueen í einu af sínum þekktustu hlutverkum, sem löggan óstýriláta …
McQueen í einu af sínum þekktustu hlutverkum, sem löggan óstýriláta í Bullitt frá 1968. Hér er hinn sögulegi bílaeltingarleikur í hámarki.
Steve McQueen í hnotskurn; mættur í tökur í kvikmyndaveri einhvers …
Steve McQueen í hnotskurn; mættur í tökur í kvikmyndaveri einhvers staðar í Hollywood á öflugum og stífbónuðum sportbíl af Jaguar-gerð.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: