F-TYPE sportbíll kominn til landsins

Jaguar F-Type verður kærkomin viðbót við bílaflóru landsmanna þegar hann …
Jaguar F-Type verður kærkomin viðbót við bílaflóru landsmanna þegar hann kemur á götuna. Einkar glæsilegur sportbíll þarna á ferð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til landsins kom í gærmorgun nýr Jagúar-sportbíll af svokallaðri F-TYPE-gerð en hann verður eitt af aðalnúmerunum á bílasýningunni í Fífunni um næstu helgi.

Um nokkurt skeið hefur BL verið í viðræðum við Land Rover um að selja Jagúarbíla á Íslandi og þetta verður fyrsti bíllinn sem hingað kemur til kynningar. „Við erum að forkynna merkið með því að fá þennan flotta sportbíl hingað til landsins og sýna á bílasýningunni í Fífunni,“ sagði Loftur Ágústsson, markaðsstjóri BL, í samtali við Morgunblaðið. „Við erum búnir að vera í viðræðum við Jagúarmenn og til stóð jafnvel að opna fyrr en viðræðurnar hafa tekið lengri tíma en við reiknuðum með. Við getum þó sagt að við munum opna Jagúarumboð með haustinu þar sem verða til sölu allir helstu bílarnir frá Jagúar. Það sem er best við það er þó líka að okkur sýnist við verða með bílana á mjög samkeppnishæfu verði.“

Vel búinn bíll með fjórhjóladrifi

F-týpan, sem er að koma til landsins, er í mjög flottri útfærslu, svokölluð S Coupé með fjórhjóladrifi. Vélin er sex strokka og skilar 380 hestöflum og 460 Newtonmetra togi. Hröðunin er 4,9 sekúndur í hundraðið en eyðslan þó ekki nema 8,6 lítrar í blönduðum akstri. Bíllinn er sérlega vel búinn með 770 watta Meridian-hljómkerfi, sólþaki, Black Design-leðurinnréttingu, átta tommu snertiskjá og innfelldum hurðarhúnum. Vindskeiðin er þannig að hún stillir sig af eftir hraða bílsins. Hann kemur með High Performance-hemlakerfi, 20 tommu álfelgum, Limited Slip-afturdrifi, stillanlegri sportfjöðrun og Twin-Sport-pústkerfi.

Keppa við þýsku lúxusbílana

Jagúar er með línu sem keppir við bíla eins og Mercedes-Benz, Audi og BMW. Minnsti bíllinn ef svo má segja er XE, sem er sambærilegur við Audi A4 og 3-línu BMW. Jagúar XF er að koma í nýrri kynslóð en hann er til höfuðs E-línu Mercedes-Benz, 5-línu BMW og Audi A6. Loks er flaggskipið Jagúar XJ í sama flokki og Audi A8, BMW 7-lína og S-línan frá Mercedes-Benz. F-týpan er hins vegar sportbíll með breiðari línu keppinauta, en meðal þeirra eru þrír Porsche, 911, Cayman og Boxster. Mercedes-Benz SLK55 kemur líka sterkur inn sem og BMW Z4. „Loks er þess ekki langt að bíða að Jagúar komi með sportjeppa á markað en þegar hefur C-X17-tilraunabíllinn verið kynntur á bílasýningunni í Frankfurt 2013. Nýi sportjeppinn heitir F-PACE og byggist á sömu grunnhugmynd og F-TYPE með sams konar undirvagni,“ sagði Loftur einnig um væntanlega framtíð Jagúarmerkisins á Íslandi. njall@mbl.is

Jagúarumboð verður opnað á Íslandi með haustinu.
Jagúarumboð verður opnað á Íslandi með haustinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Jaguar F-Type er einkar glæsilegur sportbíll.
Jaguar F-Type er einkar glæsilegur sportbíll. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Jagúar er með línu sem keppir við bíla eins og …
Jagúar er með línu sem keppir við bíla eins og Mercedes-Benz, Audi og BMW. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: