Úlfur í rúgbrauðsgæru

VW Rúgbrauð eru ekki þekkt fyrir getu sína í hraðakstri …
VW Rúgbrauð eru ekki þekkt fyrir getu sína í hraðakstri en það breytist máske með þessu eintaki.

Flestum bílaáhugamönnum eru kunn þau víðtæku sögulegu tengsl sem eru milli þýsku bílaframleiðendanna Porsche og Volkswagen.

Sem dæmi má nefna að það var sjálfur Ferdinand Porsche sem hannaði VW-Bjölluna, einn merkasta fólksbíl 20. aldarinnar, og svo mætti lengi telja. Nú hefur bílagrúskari nokkur frá Sviss, Fred Bernhard að nafni, tekið sig til og fundið enn einn sameiginlega flötinn á þessum víðfrægu þýsku bílamerkjum. Verkefnið tók hann um sex ár og afraksturinn, sem hann kýs að kalla FB1 Race Taxi, er býsna áhugaverður.

Saklaust útlit, svakaleg vél

Bíllinn sem Bernhard þessi hefur galdrað saman sést á meðfylgjandi myndum. Það sem virðist í fyrstu ósköp sakleysisleg 1962 árgerð af Volkswagen T1 Bulli sendibíll – það sem Mörlandinn hefur gegnum tíðina kallað „rúgbrauð“ vegna lögunar sinnar – er sannkallað óargadýr þegar að er gáð. Bíllinn býr nefnilega yfir vélarafli upp á heil 530 hestöfl sem ljá umræddu rúgbrauði tog upp á 757 Nm. Já, þú last rétt.

Ástæðan fyrir þessu ógurlega afli er vélin. Hún kemur nefnilega úr Porsche 993, sem er í raun verksmiðjuheitið á Porsche 911 sem smíðaður var frá því síðla árs 1993 til snemma árs 1998. Auk þess hefur eigandinn skipt út stáli fyrir koltrefjar þar sem því hefur verið komið við. Það þarf því talsvert öflugan bíl til að bjóða þessu tiltekna rúgbrauði í spyrnuakstur og ætla að hafa sigur.

Hvað sem þú gerir, ekki kalla bílinn „franskbrauð“.

jonagnar@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: