Gíraffinn á göturnar í haust

„Robocop Viséo“ gæti gagnast við öryggisgæslu og þegar halda þarf …
„Robocop Viséo“ gæti gagnast við öryggisgæslu og þegar halda þarf uppi röð og reglu. Hér er stjórnklefinn niðri.

Gerðar hafa verið tilraunir með „gíraffa-bíl“ á Parísarsvæðinu í Frakklandi, en hann minnir meira á furðuleg farartæki úr tölvuleikjum en venjulegan bíl. Hann er þó talinn geta átt eftir að verða hluti af viðburðastjórntækjum lögreglusveita.

Lögreglusveitir í bænum Evry í Essonne-sýslu hafa prófað bíl þennan frá í mars og munu ánægðar með árangurinn. Bíllinn ber hið frumlega heiti „Robocop Viséo“ en hann er meðal annars talinn geta reynst gagnlegur til öryggisgæslu hvers konar. Svo sem til að halda uppi röð og reglu og til mannfjöldastjórnunar; meðal annars við lögregluaðgerðir tengdar útifundum. Um er að ræða rafbíl með stjórnklefa sem lyfta má í allt að 3,5 metra hæð, jafnvel á lítilli ferð. Með því fá ökumaður og samferðamaður óhindrað útsýni fram á við og til hliðanna, eða rúmlega hálfhring, í 210 gráðu boga.

Lítið fyrirtæki að nafni Iris í bænum Ligny-en Cambresis nyrst í Frakklandi smíðaði bílinn. Á 25 km/klst hraða dregur Robocop Viséo 80 kílómetra á fullri rafhleðslu. Reynsla lögreglu af prófunum bílsins er sú, að ákveðið hefur verið að hefja raðsmíði á honum. Kemur bíllinn á markað með hausti komanda. Verðmiðinn er 45.000 evrur, eða um 6,7 milljónir króna.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: