VW fram úr Toyota

VW seldi ögn fleiri bíla en Toyota á fyrri helmingi …
VW seldi ögn fleiri bíla en Toyota á fyrri helmingi ársins.

Volkswagen (VW) er stærsti bílsmiður heims ef marka má sölutölur á fyrri helmingi ársins sem bílaframleiðendur eru að birta um þessar mundir.

Fyrr í mánuðinum sagðist VW hafa selt 5,04 milljónir bíla fyrstu sex mánuðina en Toyota birti sínar tölur í morgun og samkvæmt þeim hefur VW tekið fram úr japanska risanum, í fyrsta sinn í sögunni. 

Toyota segist hafa selt 5,02 milljónir eintaka á tímabilinu janúar til júníloka, eða um 200.000 færri bíla en Volkwagen. Er það 1,5% minni sala en á sama tímabili í fyrra. Mestu munar í því um tregðu í sölu á heimamarkaði í Japan.

Volkswagen segist hafa notið góðrar sölu í Evrópu og Norður-Ameríku en samdráttur hafi orðið hjá fyrirtækinu á Kínamarkaði. Var sala VW fyrstu sex mánuðina 0,5% minni en á sama tímabili í fyrra.

Búist er við að General Motors (GM) birti sölutölur sínar á fimmtudag. GM var stærsti bílsmiður heims áratugum saman til 2008 er Toyota tók fram úr honum.

Volkswagen gengur líka vel í HM í ralli en hér …
Volkswagen gengur líka vel í HM í ralli en hér er aðal ökumaður þess, Frakkinn Sebastien Ogier, á ferð á Volkswagen Polo rallbíl. mbl.is/afp
mbl.is