Öllum bílaframleiðendum vantreyst

Risastórt veggspjald með mynd af andlitslausum manni hefur verið sett …
Risastórt veggspjald með mynd af andlitslausum manni hefur verið sett upp við höfuðstöðvar Volkswagen í borginni Wolfsburg í Þýskalandi. mbl.is/afp

Svindl Volkswagen (VW) á útblástursprófunum mun ekki aðeins koma við kaunin á þýska bílrisanum. Athyglin beinist að öðrum bílaframleiðendum og spurt er hvort þeir hafi ekki beitt sambærilegum brellum til að bílar þeirra kæmu betur út í mengunarmælingum.

Almennt þykir útblástursmælingahneykslið hafa skaðað álit alls bílaiðnaðarins, alla vega gagnvart bandarískum eftirlitsaðilum. Forstjóri þjóðvegaöryggisstofnunarinnar (NHTSA), Mark Rosekind, segist spyrja sig hvort aðrir framleiðendur en Volkswagen beiti sömu meðulum.

Rosekind segir, að misgerð VW muni neyða stofnunina til að taka á öllum bílgreinafyrirtækjum af meiri tortryggni  en áður. „Grundvallarspurningin er hversu algengt er þessi óheiðarlegi verknaður í allri bílgreininni?. Við vitum ekki hvort þetta er einstakt tilfelli eða hvort aðrir geri slíkt hið sama,“ segir NHTSA-stjórinn.   Og bætir því við, að hinar óheppilegu afleiðingar VW-svindlsins væru þær, að menn bæru nú ekki kvíðboga gagnvart þýska bílsmiðnum einum og sér, heldur öllum bílaframleiðendum heimsins. „Fyrst þeir [VW] gerðu þetta gætu aðrir hafa gert það líka,“ segir hann.

Slíkar ásakanir bera bílaframleiðendur af sér og hefur franska fyrirtækið PSA Peugeot-Citroen til að mynda hvatt til formlegrar rannsóknar á hvort athæfið hafi viðgengist þar í landi. Forstjóri Renault-Nissan, Charles Ghosn, segir að innanbúðar yrði það gríðarlega erfitt fyrir bílaframleiðanda að reyna halda leyndum fölsunum eins og í tilviki Volkswagen. Hann segir málið mikla áskorun fyrir aðra bílaframleiðendur sem muni allir sæta grunsemdum úr þessu.
Franski efnahagsmálaráðherrann Emmanuel Macron sagði í dag, að engar vísbendingar væru fyrir hendi um að aðrir bílaframleiðendur hefðu samskonar blekkingarforrit og Volkswagen til að fela raunverulega losun dísilvéla á gróðurhúsalofti. „Við munum ganga afar hratt í málið og krefja okkar bílsmiði um sannleikann í málinu. Á þessu stigi virðist málið bundið við Volkswagen,“ sagði Macron.

Skyndiskoðanir á svæði ESB

Á næstunni hefjast skyndiskoðanir á ESB-svæðinu á bílum annarra framleiðenda en Volkswagen til að kanna raunverulegan hreinleika þeirra og hvort niturslosun þeirra sé innan marka eður ei. Frá þessu skýrði þýski samgönguráðherrann, Alexander Dobrindt, í dag.
 
Kjarni hneykslismálsins er sá, að komið var fyrir tölvuforritum í vélbúnaði nokkurra bílamódela frá Volkswagensamsteypunni er blekktu mælibúnað þegar mæld voru mengunargildi útblásturs bílanna, t.d. við skoðun. Þess á milli losuðu dísilvélar bílanna allt að 40 sinnum meiri mengun en leyfilegt var í bandarískum lögum.  Sérfræðingar hafa reiknað út, að VW-bílarnir með blekkingarforritin um heim allan hafi losað um milljón tonn af ólöglegri mengun, nituroxíði, á ári hverju. Alls munu bílarnir vera 11 milljónir. Mál þetta þykir álitshnekkir ekki aðeins fyrir Volkswagen-samsteypuna heldur og fyrir þýskt efnahagslíf í heild.  Ekki bætir úr skák, að komið er í ljós, að upplýsingum um meint svindl Volkswagen með feluforritunum hafi verið komið á framfæri við ráðherra í stjórn Angelu Merkel fyrr á árinu en þeir  hafi skellt skollaeyrum við þeim.

Holskefla dómsmála

Er nú svo komið í málinu, að þýskur ríkissaksóknari hefur hafið hafið frumathugun á þætti þýskra starfsmanna VW í svindlinu og í Bandaríkjunum hefur verið hafin dómsrannsókn vegna málsins á hendur Volkswagen sem talin er geta átt eftir að hafa gríðarlegar fjárhagslegar afleiðingar í för með sér fyrir þýska bílrisann. Hafa lögmenn bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi hvatt til hópdómsmála á hendur VW með kröfum upp á milljarða dollara í skaðabætur. Virðist stefna í að VW muni fá yfir sig holskeflu dómsmála vegna svindlsins.

Vegna útblástursblekkinga spyr NHTSA-stjórinn Rosekind hvort Volkswagen hafi ef til vill stytt sér leið í öryggismálum. Sagði hann niðurstöðuna þá, að nú væri engum gögnum lengur hægt að treysta frá bílaframleiðendum. Rannsaka þyrfti alla þætti bíla og öryggis þeirra í stað þess að taka upplýsingum frá bílsmiðum sem góðum og gegnum. Þá er spurt hvort ekki hafi líka verið brallað með upplýsingar um eldsneytisnotkun bíla, en neytendasamtök hafa bent á að uppgefnar tölur um neyslu gætu verið fengnar úr gölluðum akstursprófunum.  Hefur leiðtogi flokks græningja, Natalie Bennett, hvatt yfirvöld til að skoða þann möguleika að saksækja Volkswagen fyrir manndráp af gáleysi.

Tilræði við þýskan efnahag?

Hneykslismálið hefur valdið þýsku efnahagslífi miklu álitshnekki og stjórnvöldum vanda. Vara greiningarfyrirtæki við því að kreppan hjá Volkswagen gæti undið upp á sig og ógnað stærsta hagkerfi Evrópu. Samsteypan er einn stærsti vinnuveitandi Þýskalands með um 270.000 manns á launaskrá þar í landi. Annar eins fjöldi ef ekki meiri starfar svo fyrir fjölda birgja sem sjá VW meðal annars fyrir íhlutum í bíla. Sérfræðingar segja dökk ský hafa hrannast upp yfir efnahagslífinu.  „Allt í einu er fallhættan fyrir þýska hagkerfið orðin meiri af völdum Volkswagen en grísku skuldakreppunni,“ segir Carsten Brzeski, aðalhagfræðingur ING-bankans, við fréttastofu Reuters í dag.

 
Víst þykir að mikið vatn eigi eftir að renna til sjávar áður en öll kurl koma til grafar í þessu vandamáli Volkswagen, og hugsanlegra annarra bílaframleiðenda. Til þess að komast hjá að vera stefnt fyrir rétt fyrir brot á hegningarlögum af hálfu bandarískra yfirvalda þykir Volkswagen þurfa áður að sannfæra þau um, að réttmætar ástæður hafi verið fyrir því að koma feluforritunum fyrir í aflrás dísilbílanna sem hlut áttu að máli. Þar var um að ræða the módelin Jetta, Beetle, Audi A3 og Golf af árgerðunum  2009 til 2015 og Passat af árgerðunum 2014 og 2015. Allir voru þeir búnir  2ja lítra dísilvélum.

Höfuðstöðvar Volkswagen í Wolfsburg umsetnar fulltrúum fjölmiðla.
Höfuðstöðvar Volkswagen í Wolfsburg umsetnar fulltrúum fjölmiðla. mbl.is/afp
Martin Winterkorn fyrrverandi forstjóri.
Martin Winterkorn fyrrverandi forstjóri. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina