Fiat sportbíll smíðaður hjá Mazda

Fiat 1245 Spider er skyldur Mazda MX-5. Bíllinn verður með …
Fiat 1245 Spider er skyldur Mazda MX-5. Bíllinn verður með álblandaðri yfirbyggingu og er eftir því léttur.

Fiat er að senda frá sér nýjan tveggja sæta opinn sportbíl, Fiat 124 Spider, sem ítalski bílsmiðurinn hefur þróað í samstarfi við Mazda. Er hann byggður upp af undirvagni Mazda MX-5 en hönnunin er ítölsk og í aflrásinni hverfilblásin vél.

Bíll sem þessi hefur verið á stefnuskrá Fiat um árabil og framan af var hugmyndin að hann yrði smíðaður undir merkjum Alfa Romeo. Hvað átt hefur sér stað að tjaldabaki í millitíðinni skal ósagt látið, en niðurstaðan er að bíllinn verður Fiat.

Stefnubreyting til sparnaðar

Hið athyglisverða er að 124 Spider verður smíðaður hjá Mazda, í bílsmiðjunni í Hiroshima. Það mætti túlka sem mikla stefnubreytingu af hálfu Fiat, en það sem ræður fyrst og fremst ferðinni er að smíði bílsins verður kostnaðarminni í Asíu en Evrópu. Það skiptir miklu þegar um er að ræða bíla sem seljast í frekar takmörkuðu upplagi.

Þótt 124 Spider verði smíðaður á undirvagni MX-5 hefur bíllinn að öllu leyti verið hannaður í hönnunarmiðstöð Fiat í Tórínó. Vélin og öll tækni aflrásarinnar verður frá Fiat. Er bensínvélin 1,4 lítra og fjögurra strokka með forþjöppu. Skilar hún 103 kílóvatta afli við 5.000 snúninga og 240 Newtonmetra togi við 2.250 snúninga. Gírkassinn er sex hraða og handskiptur. Er ál notað við smíði hans og vélarinnar til að létta bílinn sem mest. Hið sama er að segja um yfirbyggingu bílsins en í henni er blanda af áli og hástyrktarstáli.

Bíllinn er 4,054 metra langur og 1,740 m á breidd. Mesta þakhæð er 1,233 metrar. Tómaþungi er aðeins 1.050 kíló.

agas@mbl.is

Fiat 1245 Spider er nokkuð skyldur Mazda MX-5.
Fiat 1245 Spider er nokkuð skyldur Mazda MX-5.
Ekki amalegt starfsrými ökumanns í Fiat 124 Spider.
Ekki amalegt starfsrými ökumanns í Fiat 124 Spider.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: