Nýr Prius mun öflugri

Hástyrktarstál er notað í hluta yfirbyggingarinnar sem er mun stífari …
Hástyrktarstál er notað í hluta yfirbyggingarinnar sem er mun stífari fyrir bragðið. Aflrásin er með öllu ný og skilar hún 122 hestöflum.

Ný kynslóð af tengiltvinnbílnum Toyota Prius, sú fjórða í röðinni, verður mun öflugri en samt sparneytnari en þær fyrri. Tekur skilvirkni hans miklum breytingum til hins betra, að sögn Toyota.

Þannig segir, að bíllinn losi aðeins 70 G/km af gróðurhúsalofti og brúki aðeins 3 lítra af eldsneyti í blönduðum akstri.

Aflrásin er með öllu ný og er skilvirkni bruna bensínvélarinnar sögð meiri en nokkur dæmi séu til um. Skilar hún 122 hestöflum og ný aflstýring gerir það að verkum að krafturinn nýtist jafnar en áður. Leyfir aflstýringin meiri notkun rafmótora og fyrir bragðið verður hröðunin jafnt og þétt meiri eftir því sem snúningur vélarinnar eykst.

„Með hverri kynslóð hefur Toyota Prius tekið breytingum er leitt hafa til minni losunar mengunar og aukinnar sparneytni. Framfarastökkið sem næst með fjórðu kynslóðinni er þó hið mesta frá því Prius kom fyrst á markað, árið 1997,“ segir í tilkynningu frá Toyota.

Hinn nýi tvinn-Prius kemst úr kyrrstöðu í 100 km/klst ferð á 10,6 sekúndum. Þá er bíllinn 8,3 sekúndur að auka ferðina úr 80 til 120 km ef til framúraksturs kemur. Uppgefin hámarkshraði er 180 km/klst.

Þessu til viðbótar verður yfirbygging hins nýja Prius 60% stífari en hingað til. Því er náð með notkun létts og sterks hástyrktarstáls og nýrri suðu- og smíðistækni.

agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: