Qashqai-jepplingur ársins í Danaveldi

Nissan Qashqai þykir velheppnaður.
Nissan Qashqai þykir velheppnaður.

Danir kunna að meta bíla frá Nissan ef marka má það, að annað árið í röð hefur Nissan Qashqai verið valinn jeppi ársins í Danmörku.

Jepplingar er sá stærðarflokkur bíla sem hefur haft hvað mestan byr í seglin á árinu og í Danmörku eru það Qashqai og ögn minni frændi hans Renualt Captur sem vísað hafa veginn. Hafa selst grimmt og teljast góður valkostur miðað við hlaðbaka af VW Golf-stærð eða minni langbaka. Hærri seta auðveldar að stíga inn í bílinn eða út úr ásamt því að veita betri yfirsýn í umferðinni.

Í fyrra urðu í öðru og þriðja sæti Dacia Duster og sigurvegarinn frá 2013, Honda CRV. Í ár fékk Qashqai harða keppni frá Fiat 500X, Mazda CX-3, Suzuki Vitara og hinum nýja Renualt Kadjar, sem á margt sameiginlegt með hinum fyrrnefnda vegna náins samstarfs Nissan og Renault.

Þegar upp var staðið þótti dómendum Nissan Qashqai fremstur í flokki þegar litið væri til blöndu af kaupverði, búnaði, rými og aflrás. Hlaut hann samtals 46 stig og var 10 stigum á undan Mazda CX-3 sem dómnefndin sagði ánægjulegastan í akstri. Rými og verð unnu hins vegar gegn þessum bíl í valinu.

Fiat 500X vakti athygli og hafnaði í þriðja sæti með 28 stig, tveimur á undan Renault Kadjar. Suzuki Vitara rak svo lestina með 14 stig. agas@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: