Næst dýrasti bíll sögunnar

Kappakstursbíll frá Ferrari frá árinu 1957 var seldur á 32 milljónir evra á fornbílasýningu, sem lauk í gær, sunnudag, í París. Jafngildir það rúmlega 4,5 milljörðum króna.

Miðað við núverandi gengi helstu gjaldmiðla mun þetta vera næst dýrasti bíll sögunnar. Sá dýrasti var einnig af Ferrarigerð og sleginn á 38 milljónir dollara á uppboði í Kaliforníu árið 2014.

Aldrei mun hins vegar hafa verið borgað hærra verð í evrum á bílauppboði en í París á föstudag. Fyrra metið var28,5 milljónir evra sem borgaðar voru fyrir Ferrari 250 GTO í hitteðfyrra, árið 2014.

Svo sem algengt er með Ferraribíla var 335 Sport Scaglietti bíllinn eldrauður. Meðal helstu sigra hans var að hann kom fyrstur í mark á Grand Prix kappakstrinum á Kúbu árið 1958. Hann setti einnig besta brautartíma í sólarhringskappakstrinum í Le Mans í Frakklandi.

Nokkrir helstu ökumenn sögunnar óku honum á sínum tíma í keppni, þar á meðal Bretarnir Stirling Moss og Mike Hawthorn.

Aðeins fjögur eintök 335 Sport Scaglietti voru smíðuð á sínum tíma. Hinum nýja eiganda bílsins er aðeins lýst sem „alþjóðlegum kaupanda“. Til hinnar árlegu fornbílasýningar og uppboðs í París, „Retromobile festival“, mæta helstu bílasafnarar heims eða fulltrúar þeirra.

mbl.is