F-Type í SVR útgáfu

Jaguar F-type SVR var sýndur á bílasýningunni í New York …
Jaguar F-type SVR var sýndur á bílasýningunni í New York í marslok. Bíllinn á sér marga dygga aðdáendur. AFP

Rétt um það bil þegar þú hélst að F-Type væri það svakalegasta sem fyrirtækið hefði upp á að bjóða, ákvað SVO-deildin (Special Vehicle Operations) hjá Jaguar Land Rover að sleppa lausri SVR-útfærslu af F-Type sem lofar svo góðu að mann setur hljóðan.

Bíllinn er hraðskreiðasti framleiðslubíllinn frá Jaguar og því vert að kíkja aðeins á gripinn.

Mörg hestöfl, mikill hraði

Til að létta bílinn er yfirbyggingin úr samspili títaníum og koltrefja en meira er þó um vert að 575 hestafla V-8 vélin knýr bílinn – sem er fjórhjóladrifinn – upp í 322 km/klst hámarkshraða. Togið er ekki síður eftirtektarvert en það er gefið upp, skv. tilkynningu frá JLR, sem hvorki meira né minna en heil 700 NM enda flýgur F-Type SVR í hundraðið á 3,5 sekúndum, nokkuð sem ætti að fá Þjóðverjana í sama flokki til að líta um öxl.

Sérstök dekk á sérstakan bíl

Til að létta enn frekar á farskjótanum er SVR-týpan á sérhönnuðum 20 tomma felgum sem eru samtals um 15 kílóum léttari en þær sem fara á hefðbundna F-Type sportbíla. Aukinheldur verða SVR-felgurnar íklæddar sérstökum P ZERO-dekkjum frá Pirelli með afturdekkin 10 millímetrum breiðari en á standard-útgáfunni af F-Type. Eitthvað segir okkur að það verði gaman að þenja vél Jaguar F-Type SVR í jarðgöngum en að því má eflaust komast í sumar er bíllinn kemur í almenna sölu. Verðið í Bandaríkjum er sagt verða 126.000 dalir, um 15,5 milljónir íslenskra króna.

jonagnar@mbl.is

Koltrefjar og títaníum gera bílinn laufléttan. Vélin er skrímsli og …
Koltrefjar og títaníum gera bílinn laufléttan. Vélin er skrímsli og togið svakalegt. AFP
F-Type SVR á að geta náð 100 km/klst hraða á …
F-Type SVR á að geta náð 100 km/klst hraða á 3,5 sekúndum. AFP
Jaguar F-Type sportbíllinn á sér marga dygga aðdáendur.
Jaguar F-Type sportbíllinn á sér marga dygga aðdáendur. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: