Stakk í dekk og dó

Myndin tengist ekki atvikinu sem fréttin fjallar um.
Myndin tengist ekki atvikinu sem fréttin fjallar um. mbl.is/Sigurður Jökull

Illa fór fyrir Svía á sextugsaldri sem hafði stundað þá ólöglegu iðju að skera á dekk bíla.

Síðasta tilraun hans af því tagi endaði öðru vísi en ætlað var; dekkið splundraðist með þeim afleiðingum að maðurinn missti tak á hnífnum sem skaust til baka og stakkst í hann.

Hnífsblaðið gekk manninum á hol og skaðaði ótilgreind líffæri lífshættulega. Lá hann látinn í blóði sínu er að honum var komið að morgni síðasta sunnudags í bænum Nynäshamn suður af Stokkhólmi.

Sjúkraflutningamenn sem kallaðir voru á vettvang gátu lítið annað gert en úrskurða manninn látinn. „Hnífurinn hefur skotist í manninn er dekk splundraðist og skaðað hann lífshættulega. Honum blæddi út, ólán mannsins er ótrúlegt,“ sagði talsmaður lögreglunnar við sænsku sjónvarpsstöðina SVT.

Rannsókn málsins leiddi í ljós að stungin höfðu verið göt á fjölda bíldekkja í nágrenninu. Var það niðurstaðan að um slysadráp hafi verið að ræða og sökudólgurinn hafi verið bíldekk.

mbl.is