Minkurinn í samstarf við Avis

Minkurinn er lítill og léttur gistivagn en þó búinn bestu ...
Minkurinn er lítill og léttur gistivagn en þó búinn bestu þægindum.

Ekki alls fyrir löngu sagði Bílablað Morgunblaðsins frá „Minknum“ sem er nokkurs konar lúxusgistivagn sem kemur á markaðinn nú í sumar.

Mink Camper, eins og vagninn heitir, er íslensk hönnun og er hann sérhannaður fyrir aðstæður hérlendis, eins og segir í fréttatilkynningu frá Mink Campers. Gistivagninn vegur aðeins 500 kg og er með rúmgott gistipláss fyrir tvo fullorðna auk barns, Minkurinn er einfaldur í notkun og hentar mjög vel fyrir útleigu til ferðamanna í útileguna. Þrátt fyrir að vera lítill og meðfærilegur þá er hann sérlega vel útbúinn, meðal annars með Hästens-lúxusrúm og rúmföt, Bose-hátalarakerfi, 3G-4G nettengingu, panorama útsýnisglerþaki, sem er frábært til að virða fyrir sér stjörnurnar og/eða norðurljósin, Webasto-hitakerfi og góðri eldunaraðstöðu.

Vaxandi þörf á markaðnum

Í tilkynningunni segir að 80% þeirra ferðamanna sem sækja landið heim komi í þeim tilgangi að upplifa náttúru Íslands og vilja margir ferðast á eigin vegum til að sjá hina fjölmörgu áfangastaði um allt land. Gistirými á landsbyggðinni er aftur á móti af mjög skornum skammti og til að uppfylla vaxandi þörf markhópsins hafa Bílaleigan Avis og Mink Campers hafið samstarf.

„Með samstarfinu skapast tækifæri til að víkka enn frekar þjónustustig til ferðamanna sem vilja einfaldleika en jafnframt lúxus í ferðalaginu sínu um Ísland,“ segir Hjálmar Pétursson, forstjóri Avis/Budget á Íslandi. „Með því að leigja bíl og Mink samhliða getur ferðamaðurinn auðveldlega sérsniðið sitt ferðalag með því að leggja bílnum og gist á þeim fjölmörgu tjaldstæðum um landið sem henta hverju sinni án þess að vera búinn að skipuleggja sig mikið fram í tímann. Þetta gefur þeim tækifæri til að staldra við lengur á þeim stöðum sem þeir vilja skoða nánar eða ferðast í takt við veðurspána sem er oftar en ekki óútreiknanleg hér á landi.“

Hjálmar segir ennfremur að hann sé mjög spenntur fyrir samstarfinu við Mink Campers sem er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki með framúrstefnulega lausn fyrir fólk sem vill njóta náttúrunnar í miklu návígi. „Markmið okkar hefur alltaf verið að vera fremstir í framþróun með áherslu á þjónustu og að uppfylla þarfir ólíkra hópa, til dæmis með fjölbreyttu úrvali af bílum en þetta samstarf gefur okkur tækifæri til að víkka þjónustustigið frekar þar sem hægt er að leigja út bíl og lúxusgistingu á hjólum á sama stað og tíma.“

Öryggi, gæði og ánægja viðskiptavina í öndvegi

„Það er frábært að fá Avis/Budget í samstarf við okkur,“ segir Kolbeinn Björnsson, forstjóri Mink Campers ehf., „enda er hér um að ræða eina öflugustu bílaleigu á Íslandi með yfir 3.000 bíla í útleigu, þjónustustöðvar um allt land og mjög hátt þjónustustig. Bæði fyrirtækin vilja byggja upp öfluga starfsemi og þjónustu í kringum útleiguna þar sem öryggi, gæði og ánægja ferðamenna er í ávallt í fyrirrúmi. Samstarfið mun einnig stuðla að dreifingu ferðamanna um landið og stefnt er að því að verða leiðandi í gistingu ferðamanna á landsbyggðinni og í svokölluðum „self drive tours“ sem er stækkandi markaður. En einnig munum við kynna fyrir viðskiptavinum okkar fjölbreytta gististaði og afþreyingu í samvinnu við ferðaþjónustubændur og tjaldstæði um allt land.“

Útleiga á bílaleigubíl og Minknum mun hefjast í sumar og verður þjónustuframboðið kynnt samstarfsaðilum og viðskiptavinum á næstu vikum, segir loks í tilkynningunni.

jonagnar@mbl.is